Ísland tapaði fyrsta leik sínum gegn Grikkjum á Eurobasket 2017 í Helsinki nú fyrir skömmu, 61-90. Íslensku strákarnir náðu ekki að sýna sinn allra besta leik en góður sprettur í öðrum hluta gaf góða von um að þessi leikur gæti dottið báðu megin.
Íslenska liðið náði ekki að halda áfram þessum góða spretti í lok fyrri hálfleiks og var seinni hálfleikur algerlega eign Grikkja.
Gangur leiksins:
Það var ljóst frá fyrstu sekúndu hvað Ísland lagði upp með. Varnarlega var tvöfaldað á lyklinum og engar auðveldar körfur gefnar. Sóknin gekk brösuglega þar sem sterkir grikkir komu í veg fyrir flestar aðgerðir Íslands. Grikkland setti saman 17-1 áhlaup seinni hluta fyrsta leikhluta þar sem tapaðir boltar og auðveldar körfur í bakið var rándýrt. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 10-26 og verkefnið strax orðið ærið.
Ísland svaraði frábærlega með 17-1 áhlaupi í öðrum leikhluta og skyndilega var munurinn einungis tvö stig. Varnarleikur Íslands var magnaður í öðrum leikhluta, gríska liðið setti ekki körfu á löngu tímabili og virtist varnarleikur Íslands koma þeim á óvart. Sóknarleikurinn varð öflugri fyrir vikið og skotin fóru að detta. Staðan í hálfleik var 33-37 fyrir Grikklandi en miðað við frammistöðuna í öðrum leikhluta voru möguleikar Íslands enn til staðar.
Leikmenn mættu eitthvað slakir til leiks í þriðja leikhluta og stemmningin sem var í liðinu í þriðja leikhluta var ekki til staðar. Grikkir setti upp um gír og náðu fljótt fimmtán stiga forystu aftur. Sóknarleikurinn gekk virkilega illa og gengu grikkir á lagið og fóru með 45-61 forystu inní loka fjórðunginn.
Ísland náði ekki að komast aftur inní leikinn eftir þriðja leikhluta en gríska liðið mallaði áfram á sínum hraða. Gríska liðið var klókt í síðasta leikhluta að finna opin skot fyrir utan teig og tókst að bæta enn meira í forystuna. Lokastaðan var 90-61 fyrir Grikklandi.
Tölfræðin lýgur ekki:
Íslenska liðið tapaði 22 boltum í leiknum sem gengur tæplega gegn svo sterku liði. Þriggja stiga nýting Íslands var 9% úr 23 skotum sem er skelfilegt fyrir lið sem treystir jafn mikið á skotin fyrir utan og Ísland gerir.
Hetjan:
Haukur Helgi Pálsson var eini leikmaður Íslands sem var nægilega ákveðinn og óhræddur við að taka skotin sín. Hann endaði með 21 stig og var langbesti leikmaður Íslands í dag. Mikilvægi Pavels Ermolinskij kom bersýnilega í ljós í dag einnig, hann stjórnaði liðinu vel og las leikinn gríðarlega vel. Einnig var hann mikilvægur í varnarleik Íslands þar sem hann gat varist stórum leikmönnum og það kom grísku leikmönnunum úr jafnvægi.
Kjarninn:
Þetta var vissulega leikur sem vitað var að yrði erfiður fyrir Ísland en tapið var fullstórt þrátt fyrir það. Varnarleikur liðsins á hálfum velli var hinsvegar mjög góður í 30-35 mínútur. Íslandi tókst að koma Grikklandi úr takti nokkrum sinnum í leiknum. Það var morgunljóst á leik Gríska liðsins að þeir hefðu ekki legið yfir síðustu leikjum Íslands þar sem þeir sóttu mikið inná körfuna þar sem Ísland voru þéttir.
Tapaðir boltar og gefin sóknarfráköst voru einfaldlega banabiti Íslands í dag. Ef liðið ætlar að sigra jafn góða þjóð og Grikkland má það ekki gefa auðveldar körfur. Í dag skoraði Grikkland 22 stig úr hraðaupphlaupum og þar liggur stóri munurinn í dag.
Kristófer Acox og Tryggvi Snær Hlinason komu báðir inná með kraft og þvinguðu Grikkina til að breyta sínum leik. Báðir hefðu þeir mátt spila meira í leiknum en Kristófer spilaði 11 mínútur en hann átti stóran þátt í viðsnúningnum sem varð til í öðrum leikhluta.
Þetta er leikur sem má ekki dvelja of mikið við. Það er hægt að draga mikinn lærdóm af leiknum fyrir Ísland en þetta er bara einn leikur í þessu ferðalagi en nóg er eftir. Það er Pólland á laugardaginn og miðað við viðtöl eftir tap þeirra gegn Slóveníu eru þeir stressaðir fyrir leiknum. Það gæti orðið algjör úrslitaleikur fyrir Ísland.
Einkunnir leikmanna eftir leik
Umfjöllun: Ólafur Þór Jónsson
Myndir: Skúli B. Sigurðsson