spot_img
HomeFréttirJakob: Vonandi er ég rauðvín

Jakob: Vonandi er ég rauðvín

 
Á morgun hefst keppni í sænsku úrvalsdeildinni þar sem fjórir íslenskir leikmenn verða í eldlínunni. Jakob Örn Sigurðarson og Hlynur Bæringsson verða á fullu með Sundsvall Dragons í vetur en Logi Gunnarsson verður á mála hjá Solna Vikings. Fyrrum leikmaður Solna, Helgi Magnússon, söðlaði um á dögunum og mun leika með Uppsala svo það verða ófáar Íslendingarimmurnar á komandi tímabili. Karfan.is ræddi við Jakob Sigurðarson sem átti magnað tímabil með Sundsvall í fyrra en Sundsvall hefur leik annað kvöld á heimavelli gegn ecoÖrebro.
Hvernig hefur undirbúningstímabilið gengið hjá ykkur?
Undirbúningstímabilið hefur verið frekar stutt hjá mér. Ég kom út og fór beint á æfingu og svo daginn eftir fórum við í mót þar sem voru spilaðir 3 leikir á 3 dögum og þar meiddist ég í nára. Ég hef verið að ná mér góðum af þessum meiðslum síðustu 2 vikurnar en byrjaði að æfa á mánudaginn þannig ég næ nokkrum æfingum fyrir fyrsta leik.
 
Er Hlynur Bæringsson að ná taktinum þarna úti?
Hlynur er að standa sig mjög vel hérna og eru allir ánægðir með hann. Við erum með frekar lítið lið þannig að það á mikið eftir að mæða á honum en honum hefur gengið vel að komast inní hlutina hérna og á eftir að standa sig vel í vetur.
 
Er ekki fínt að fá annan Íslending í hópinn og hvernig heldur þú að Hlynur muni passa inn í sænsku úrvalsdeildina?
Að sjálfsögðu er rosalega gott að fá annan Íslending í liðið og sérstaklega einhvern eins og Hlyn, sem ég hef þekkt lengi. Við höfum alltaf náð vel saman og það er algjör snilld að hafa hann hérna.
 
Hver er annars staðan á þér eftir gott tímabil í fyrra, ertu rauðvín?
Vonandi er ég rauðvín! Ég hef verið að bæta mig mikið síðustu ár og alltaf átt betri og betri tímabil. Ég ætla bara að reyna að halda þessari þróun áfram eins lengi og ég get. Að sjálfsögðu hægist á manni á endanum en þangað til heldur maður bara áfram.
 
Hvað segja staðarmiðlarnir um Sundsvall þessi misserin?
Blöðin hérna í Sundsvall eru mjög spennt fyrir tímabilinu. Ein af aðalástæðunum fyrir því er að tveir aðaleikmennirnir frá 2009 þegar Sundsvall vann titilinn eru komnir aftur og því eru væntingarnar miklar. Í nýlegri spá af þjálfurum allra liðanna í deildinni var okkur oftast spáð 2-4 sæti. Það er bara fínt, við vitum að við erum með gott lið og eigum möguleika á að gera tilkall til titilsins og stefnum á það.
 
Fréttir
- Auglýsing -