Keppni í sænsku úrvalsdeildinni hefst í kvöld með þremur leikjum. Jakob Örn Sigurðarson þreytir þá deildarfrumraun sína með Boras Basket. Jakob og Boras hefja leik á útivelli þegar liðið mætir ecoÖrebro. Jakob hefur síðustu ár verið á mála hjá Sundsvall Dragons en á síðustu leiktíð voru fjórir íslenskir leikmenn þar því auk Jakobs voru þar Hlynur Bæringsson sem enn er hjá liðnu og þeir Ragnar Nathanaelsson (Þór Þorlákshöfn) og Ægir Þór Steinarsson (KR).
Karfan.is ræddi stuttlega við Jakob í morgun sem kvaðst mjög sáttur í herbúðum Boras. „Traustur klúbbur með létt og gott andrúmsloft í kringum alla. Mér líst vel á liðið, erum með marga góða leikmenn og þá sérstaklega sóknarlega. Ef við spilum saman verður erfitt að stoppa okkur,“ sagði Jakob en hvað eru menn að skeggræða ytra, hverjir þykja líklegir til afreka á tímabilinu?
„Mér heyrist flestir telja BC Luleå og Södertälje vera líklegasta til að vinna titilinn en mér finnst við líka vera með lið sem getur farið alla leið.“
Jakob sem m.a. hefur orðið sænskur meistari með Sundsvall Dragons mætir gamla félaginu sínu ekki fyrr en í lok nóvember. „Það verður rosalega sérstakt! Við spilum við Sundsvall í lok nóvember og mig hlakkar mikið til.“
Í Boras hittir Jakob fyrir fyrrum leikmann Grindavíkur, Adama Darboe, en hann er danskur landsliðsmaður og hefur einnig leikið með Jamtland í sænsku deildinni.
Leikir kvöldsins í sænsku deildinni:
Södertalje Kings – Uppsala Basket
ecoÖrebro – Boras Basket
BC Lulea – KFUM Nassjö



