spot_img
HomeFréttirJakob skapar íslenska jólastemmningu í Sundsvall

Jakob skapar íslenska jólastemmningu í Sundsvall

 
Dagskráin er þéttofin hjá Jakobi Erni Sigurðssyni og félögum í sænska úrvalsdeildarliðinu Sundsvall Dragons. Liðið á leik þann 29. desember n.k. og þar af leiðandi kemst Jakob ekki til Íslands yfir jólahátíðina en hann deyr ekki ráðalaus og er kominn með alíslenskt hangikjöt út til Svíþjóðar og ætlar að skapa þar íslenska jólastemmningu.
Jakob og félagar í Sundsvall eru í 2.-4. sæti deildarinnar nú í jólafríinu ásamt Solna Vikings þar sem Helgi Már Magnússon leikur og þriðja liðið er Plannja. Norrköping trónir á toppnum með 19 sigra og 2 tapleiki en næstu þrjú lið eru með 16 sigra og 5 tapleiki.
 
Karfan.is tók snöggt hús á Jakobi sem hefur vakið óskipta athygli í Svíþjóð enda er hann sjötti stigahæsti leikmaður deildarinnar með 17,33 stig að meðaltali í leik og þá hefur hann í tvígang gert magnaðar flautukörfur sem tryggt hafa Sundsvall sigurinn í mikilvægum leikjum. Þann 29. desember mætast svo Sundsvall og 08 Stockholm í Stokkhólmi svo Jakob þarf að fara varlega í hangikjötið.
 
Þú ert greinilega búinn að koma þér vel fyrir í Svíþjóð og finnur þig vel með liðinu. Var þetta bara eins þægilegur búferlaflutningur og það gat orðið?
Það fer mjög vel um mig og kærustuna hérna og við höfum aðlagast nokkuð vel sænska lífinu. Það eru alltaf viss viðbrigði að flytja í nýtt land en við vorum fljót að koma okkur fyrir.
 
Hvernig er svo lífið í Sundsvall?
Þetta er lítill og rólegur bær og ekki mikið um að vera en samt hefur maður allt sem þarf. Ég er svo sem alveg mjög sáttur með bæinn en staðsetningin mætti vera aðeins sunnar og nær Stokkhólmi. Það verður víst mjög kalt hérna yfir hávetrartímann og kvíði ég smá fyrir því.
 
Félagið Sundsvall, eru sænsku úrvalsdeildarfélögin mun framar en þau íslensku. Eitthvað sem hefur komið þér á óvart við veru þína þarna í s.b.v. félagið?
Félagið er mun meira "professional" heldur en ég bjóst við. Það er æft tvisvar á dag og allir í liðinu eru atvinnumenn og klúbburinn stærri en ég hafði ímyndað mér. Ég held samt að toppliðin heima myndu standa sig vel í þessari deild.
 
Áhorfendur, eruð þið að fá marga á heimaleikina ykkar og fær liðið sem og íþróttin mikið pláss í sænskum fjölmiðlum?
Við erum að fá milli 1500-1800 manns á leikina hjá okkur en það er víst minna en hefur verið undanfarin ár og við erum að heimsækja skóla og annað til að reyna að auka aðsóknina. Við erum eina karlakörfuboltaliðið í bænum og því er mikið fjallað um okkur í fjölmiðlunum hérna.
 
Þú og liðsfélagarnir, góður hópur?
Já mjög góður hópur og ég tel mig hafa verið heppinn með lið í sambandi við þetta. Við hittumst utan æfinga og náum mjög vel saman. Það er einnig mikilvægt uppá að ná árangri sem lið.
 
Þjálfarinn, þín fyrstu kynni af honum, hvað lagði hann upp við þig og hvað hefur breyst í þessum samskiptum.
Mer líkar vel við þjálfarann. Hann er ungur en samt er þetta sjötta árið sem hann er með liðið. Hann greinilega kann körfubolta mjög vel og eyðir miklum tíma í að pæla í hlutunum. Mér finnst hann vera að gera góða hluti með liðið og er með gott jafnvægi milli þess að stjórna hlutunum og gefa okkur frelsi til þess að bara spila sem er mikilvægt. Hann hefur alltaf sagt að hann ætli mér stórt hlutverk í liðinu og það hefur ekkert breyst. Ég finn að hann treystir mér og hefur trú á mér og það skiptir miklu máli fyrir mig.
 
Aðstaða til að verða betri, er hún fyrir hendi hjá Sundsvall?
Ég veit að ég er að bæta mig hérna. Ég fæ mikinn spilatíma og við spilum marga leiki og er að þroskast sem leikmaður. Við æfum vel, bæði körfuboltalega og við lyftingar og ég er að læra mikið.
 
Leikirnir, þið eruð í toppbaráttunni, er það nokkuð leyndarmál að þið stefnið á titilinn?
Það er alveg skýrt hjá klúbbnum að titillinn er það sem er stefnt á. Við erum í toppbaráttunni og erum eitt af fjórum liðum sem eru með afgerandi besta mannskapinn og því tel ég okkur eiga fína möguleika á því að fara alla leið.
 
Helgi, hvernig er ykkar samband þarna úti, eflaust skrýtið að mætast á parketinu?
Við höfum þekkst mjög lengi og erum í góðu sambandi hérna og er ég nýkominn úr heimsókn frá Helga í Stokkhólmi. Það er skrýtið að mæta honum enda höfum við spilað mörg ár saman í sama liðinu.
 
Lífið úti, maturinn, fólkið!
Maturinn er fínn og fólkið í kringum klúbbinn vingjarnlegt og hjálpaði okkur mikið við að koma okkur fyrir. Lífið hérna er bara mjög ljúft og mér líður vel.
 
Hvernig verða hátíðarnar, mætir þú eitthvað á klakann?
Ég kemst ekki heim um hátíðarnar. Það er leikur milli jóla og nýárs hjá okkur og við fáum ekki mikið frí og því kemst ég ekki. Það er mjög svekkjandi en er kominn með hangikjöt og fleira frá Íslandi og því verður bara sköpuð íslensk jólastemmning hérna í staðinn.
 
Fréttir
- Auglýsing -