„Við vitum í rauninni lítið hvað við erum að fara út í og hvaða möguleika við eigum að komast upp úr riðlinum. Cantu og LeHavre frá Frakklandi eiga að vera sterkustu liðin þannig þetta er rosalega góð byrjun hjá okkur,“ sagði Jakob Örn Sigurðarson í samtali við Karfan.is eftir stóran og öruggan sigur Boras á FoxTown Cantu í FIBA Europe Cup. Leikurinn í kvöld var janframt sá fyrsti á ferlinum hjá Jakobi í þessari keppni og ekki amalegt að skila af sér 21 stigi í eldskírninni.
Aðspurður um hvernig og hvort þetta hafi mögulega áhrif á möguleika Boras í sænsku úrvalsdeildinni sagði Jakob:
„Þetta eykur álagið töluvert og sérstaklega núna í nóvember. Þá spilum við að ég held 8 leiki á 23 dögum með ferðalögum til Ítalíu, Frakklands og Austurríki. Það getur vel verið að þetta komi niður á sænsku deildinni. Núna eigum við leik strax á föstudaginn í sænsku deildinni og aðallega að gíra sig upp andlega eftir svona stóran sigur verður áskorun,“ sagði Jakob en er klúbburinn með nægilega dýpt til að vera að berjast á tveimur vígstöðvum?
„Við megum allavega ekki við neinum meiðslum. Við erum með 7 menn sem spila flestar mínúturnar. Svo er einn meiddur sem var „starter“ í fyrra. Þurfum mikið að fá hann tilbaka. Það er allavega pottþétt að hin liðin í riðlinum eru með meiri breidd en við,“ sagði Jakob sem leikur aftur á heimavelli næsta föstudag en þá í sænsku deildinni þegar Uppsala kemur í heimsókn.



