21:36
{mosimage}
(Jakob Örn Sigurðarson)
Topplið KR hefur ekki tapað leik frá því að þetta leiktímabil hófst. Æsibunugangurinn í Vesturbænum hófst í Reykjavíkurmótinu, þar næst kom Poweradetitillinn og nú er liðið ósigrað á toppi Iceland Express deildarinnar með 11 sigra. Jakob Örn Sigurðarson hefur stjórnað leik KR af mikilli festu og Vesturbæjarveldið hefur vart stigið feilspor og sýna styrk sinn með því að ná sigri í þeim leikjum sem þeir telja vera dapra af sinni hálfu.
,,Okkur líður vel í dag og hefur liðið vel í allan vetur. Við erum á réttri braut og ætlum að halda áfram,“ sagði Jakob sem í dag var útnefndur besti leikmaður fyrstu 11 umferðanna með 17,1 stig að meðaltali í leik, 3,3 fráköst, 4,5 stoðsendingar og 2,0 stolna bolta.
Einhverjir telja að bakslag hafi komið í KR liðið í leikjum á borð við Snæfells leikinn þar sem t.d. vantaði Hlyn Bæringsson og svo gegn botnliði Stjörnunnar þar sem vannst naumur sigur. ,,Okkur hefur gengið vel að halda dampi í jólafríinu og teljum að það hafi ekki komið neitt bakslag í okkar leik en við vitum að það hafa komið leikir þar sem allir hlutir eru ekki að ganga upp hjá okkur. KR hefur samt tekist að finna leiðir til þess að vinna þessa leiki og það er klárlega merki um styrkleika okkar og þá hefur okkur gengið mjög vel að klára nokkra leik á endasprettinum þar sem við höfum komið sterkir til baka,“ sagði Jakob sem er sáttur við að hafa komið heim úr atvinnumennskunni.
,,Ég kann vel við mig og mér líður vel að spila með strákunum í KR og er gríðarlega sáttur við að þá ákvörðun mína að koma heim að spila í eitt ár,“ sagði Jakob en það var ekki hægt að sleppa honum án þess að pressa aðeins á bakvörðinn snjalla!
Eru einhver tilboð komin að utan?
,,Það hefur ekkert verið hringt af viti, ekkert sem ég hlusta á, en það hefur verið eitthvað,“ svaraði Jakob nokkuð lúmskur á svip.



