Bakvörðurinn Jakob Örn Sigurðarson er hættur að leika með íslenska landsliðinu en Vísir.is greindi frá þessu fyrir stundu. Þar með lýkur 15 ára ferli bakvarðarins öfluga hjá íslenska landsliðinu en þessi langi ferill fékk hápunkt á EuroBasket í Berlín 2015 þar sem Jakob var á meðal byrjunarliðsmanna.
Jakob hóf að leika fyrir íslenska landsliðið árið 2000 og þá tiltölulega nýkominn með bílpróf. Jakob hefur ekkert æft með landsliðinu í sumar og segir í frétt Vísis að hann hafi gefið sér góðan tíma í að taka þessa ákvörðun sína.
„Ég tók mér veturinn og sumarið í að hugsa þetta almennilega í gegn. Einhvern tímann verður þetta að taka enda og ég ákvað að núna væri sá tími kominn,“ segir Jakob.
Mynd/ Jakob í Berlín sem reyndust síðustu fimm landsleikir kappans.