Jakob Örn Sigurðarson var á dögunum útnefndur leikmaður ársins í sænsku úrvalsdeildinni ásamt af vefsíðunni Eurobasket.com. Þá var Jakob einnig valinn besti Evrópuleikmaður ársins og besti bakvörðurinn. Karfan.is ræddi stuttlega við Jakob sem sagði að þrátt fyrir fínan árangur hefði það komið í ljós í úrslitakeppninni að Sundsvall hefði verið með ungt og óreynt lið.
,,Þetta er rosalegur heiður fyrir mig og skemmtilegt að fá viðurkenningu fyrir frammistöðu mína í vetur. Okkur gekk ekki vel í úrslitakeppninni og því bjóst ég ekki við neinum verðlaunum en ég er stoltur af þeim,“ sagði Jakob en Sundsvall datt út í fyrstu umferð úrslitakeppninnar þessa leiktíðina.
,,Tímabilið hjá okkur var mjög gott. Við vorum með nýtt og ungt lið og ekki var búist við miklu af okkur. Við náðum 3.sæti og það var mjög góður árangur. Í úrslitakeppninni kom kannski í ljós hvað við vorum með ungt og óreynt lið en í heildina getum við verið ánægðir með veturinn,“ sagði Jakob og telur síðasta tímabil sem hann lék með KR hafa gefið honum mikið.
,,Ég er mjög ánægður með mína frammistöðu í vetur. Að spila heima fyrir KR í fyrra gerði mér mjög gott. Þar fékk ég stórt hlutverk og mikla ábyrgð sem hjálpaði mér mikið í vetur. Þetta var í raun í fyrsta skipti í Evrópu sem ég var svona stóru hlutverki og er ánægður með að hafa fengið það traust frá þjálfaranum.“



