spot_img
HomeFréttirJakob fór á kostum í toppslagnum

Jakob fór á kostum í toppslagnum

 
Sundsvall tókst í kvöld að saxa á forskot Norrköping í sænsku úrvalsdeildinni í körfuknattleik er liðin mættust í toppslag 25. umferðar. Leikurinn fór fram á heimavelli Norrköping þar sem Sundsvall landaði 79-91 útisigri og fór Jakob Örn Sigurðarson á kostum með 28 stig í leiknum og var hann stigahæsti maður vallarins.
Tæplega 1800 manns fylgdust með leiknum þar sem Jakob lék manna mest eða í 39 mínútur. Auk 28 stiga var Jakob með 5 stoðsendingar, 4 fráköst og 2 stolna bolta. Magnaður útisigur hjá Jakobi og Drekunum sem söxuðu forskot Norrköping í sænsku úrvalsdeildinni niður í 4 stig. Norrköping er enn á toppnum með 40 stig en Sundsvall hefur 36 stig í 2. sætinu.
 
Helgi Már Magnússon og Solna fengu 08 Stockholm í heimsókn í Solnahallen þar sem heimamenn fóru með 98-82 sigur af hólmi. Íslendingarnir í Svíþjóð gerðu það gott í kvöld þar sem Helgi var stigahæstur í liði Solna með 23 stig og var næststigahæsti maður vallarins á eftir Pleisir Mukoko sem gerði 26 stig í liði 08 Stockholm. Helgi lék í 22 mínútur í leiknum og var með glæsta tvennu því til viðbótar við 23 stig var hann einnig með 10 fráköst.
 
Eftir sigurinn í kvöld eru Solna í 4. sæti deildarinnar með 34 stig en næsta lið í 5. sæti hefur 22 stig. Plannja kemur svo í 3. sætinu með jafn mörg stig og Sundsvall eða 36 stig.
 
Fréttir
- Auglýsing -