23:42
{mosimage}
(Jakob Örn Sigurðarson)
,,Það er erfitt að spila við Grindavík á þeirra eigin heimavelli og þeir hittu alveg svakalega, sérstaklega í byrjun,“ sagði Jakob Örn Sigurðarson í samtali við Karfan.is eftir sigur Grindavíkur á KR 91-80 í Röstinni í kvöld. Jakob gerði 15 stig, tók 7 fráköst og gaf 7 stoðsendingar fyrir topplið KR sem fékk rautt ljós í Röstinni og mátti horfa upp á sinn fyrsta ósigur á leiktíðinni. KR er nú með 32 stig á toppi deildarinnar en fast á hæla þeirra kemur Grindavík með 30 stig og eru yfir í innbyrðisviðureignum liðanna.
Vörn KR var ekki upp á sitt besta í kvöld enda Vesturbæingar annálaðir varnarjaxlar þessa leiktíðina. Grindavík gerði 25 stig í hverjum leikhluta á KR fyrstu þrjá leikhlutana og því voru gulir komir með 75 stig fyrir fjórða og síðasta leikhluta. ,,Þeir skoruðu alltof mikið á okkur og við hleyptum þeim í gang í byrjun með því að gefa þeim nokkur skot sem þeir settu niður og þannig komust þeir í gang og héldu því það sem eftir var leiksins,“ sagði Jakob súr með varnarvinnu KR í leiknum.
KR beytti svæðisvörn snemma í fjórða leikhluta sem virtist hægja vel á Grindavík, hefðu þeir átt að grípa fyrr til hennar? ,,Svæðisvörnin hægði á þeim og við fengum nokkur hraðaupphlaup og þá var þetta orðið jafnt en þeir bara hittu úr stóru skotunum en ekki við,“ sagði Jakob gerir sér fulla grein fyrir því að deildarmeistaratitillinn er ekki í höfn.
,,Við vitum það alveg að við þurfum að klára restina af leikjunum okkar en við erum ennþá í efsta sætinu og þetta er ennþá undir okkur komið. Við þurfum bara að klára okkar og þá erum við í fyrsta sæti,“ sagði Jakob en gæti þessi ósigur Vesturbæinga veitt öðrum liðum kapp í kinn núna þegar þau sjá að KR er ekki ósigrandi?
,,Þetta á bara að vera eitthvað sem við notum til að halda áfram en ég veit ekkert hvernig hin liðin í deildinni líta á þetta. Þessi leikur var smá svona uppvakning fyrir okkur en við erum ekkert að stressa okkur á þessum leik, þetta var bara einn leikur og við höldum bara áfram og reynum að gera betur næst,“ sagði Jakob Örn Sigurðarson leikstjórnadi KR.



