spot_img
HomeFréttirJakob: Ekki mikill tími fyrir ströndina

Jakob: Ekki mikill tími fyrir ströndina

19:18 

{mosimage}

 

 

 

Karfan.is setti sig í samband við Jakob Örn Sigurðarson sem þessa dagana er að koma sér fyrir hjá nýja liðinu sínu Ciudad de Vigo Basket á Spáni en Vigo leikur í 2. deild. Tímabilið leggst vel í kappann og segir hann Vigo tefla fram tiltölulega nýju liði í ár frá síðustu leiktíð. „Það mun taka einhvern tíma að stilla okkar strengi og ég býst við því að fyrir jól verði svolítið ströggl á okkur,“ sagði Jakob við Karfan.is.

 

Jakob gerði fimm stig í sínum fyrsta leik með Ciudad de Vigo Basket. Hann lék í 27 mínútur í þeim leik. Þá sigraði Ciudad de Vigo Basket í sínum öðrum leik á tímabilinu.  Jakob lék í 17 mínútur og skoraði 12 stig, (4/7 í þriggja). Á föstudag í síðustu viku tapaði Vigo svo 91-66 gegn CIBO LLIRIA en þeir eru í fjórða sæti LEB2 deildarinnar á Spáni. „Mórallinn í liðinu er fínn og menn eru tilbúnir að leggja mikið á sig til að búa til gott lið og vonandi tekst það sem fyrst,“ sagði Jakob.

 

„Næsti heimaleikur okkar er gegn CLÍNICAS RINCÓN AXARQUIA á miðvikudag sem eru í sjötta sæti deildarinnar, en með þeim leikur Pavel Ermolinski,“ sagði Jakob en sá leikur er heimaleikur Vigo en Jakob segir góða stemmningu vera á heimaleikjum Vigo.

 

Lið Jakobs ber sama nafn og borgin sem það er stað sett í, Vigo, í norðvesturhluta Spánar eða mjög nálægt Portúgal og eru um 300.000 manns sem búa í borginni eða um eitt stykki Ísland. „Borgin er við sjóinn en maður hefur ekki haft mikinn tíma til að kíkja á ströndina,“ sagði Jakob en mikil vinna stendur nú yfir hjá liðinu við að slípa af alla vankanta. Hjá Vigo eru tveir danir, fjórir kanar, Jakob og rest liðsins skipa Spánverjar.

Jakob hefur ekki verið að byrja inn á í síðustu þremur leikjum en hann telur stutt vera í byrjunarliðssæti hjá sér. „Ég hef verið að spila töluvert og veit að svo framarlega sem ég fæ góðar mínútur og tækifæri þá mun ég standa mig vel,“ sagði Jakob að lokum.

 

Það verður því Íslendingaslagur þegar Jakob og Pavel mætast næsta miðvikudag.

Fréttir
- Auglýsing -