spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaJafnræði á Jaðarsbökkum

Jafnræði á Jaðarsbökkum

Skagamenn í ÍA tóku í kvöld á móti Fjölnismönnum úr Grafarvogi í annarri viðureign liðanna í 8 liða úrslitum 1. deildar um laust sæti í Subway deildinni næsta tímabil.  Fjölnir leidd 1-0 fyrir leik kvöldsins en þetta var fimmti leikur liðanna þetta tímabilið og hafði Fjölnir borið sigurorð í öllum leikjunum til þessa.  Það var því allt undir fyrir ÍA til að jafna einvígið, enda bara leikirnir þar sem gilda úr þessu.  Það var því öllu til tjaldað á Akranesi, grillaðir hamborgarar og með þeim fyrir leik og áhorfendur létu sig ekki vanta, frekar en í leik eitt á föstudaginn var, og stemmningin eftir því.

Leikurinn í kvöld var á svipuðum nótum og fyrri leikur einvígisins, jafnræði var með liðunum og í fyrri hálfleik skiptust liðin á að leiða og munurinn í hálfleik var aðeins stigi heimamönnum í vil.  Fjölnistmenn mættu hins vegar mun tilbúnari til leik í síðari hálfleik og lögðu grunnin að sigri sínum með því að vinna leikhlutann með níu stigum.  Skagamenn neituðu þó að gefast upp og hleyptu Fjölni aldrei langt frá sér og náðu að jafna leikinn 68-68 þegar um 6 mínútur voru eftir af leiknum.  Þá kom kafli þar sem allt virtist ganga heimamönnum í mót og á rúmum 3 mínútum skoruðu Fjölnismenn 13 stig gegn 1, ÍA missti leikmenn af velli með 5 villur og á endanum sigldu Grafavogsmenn 80 – 88 sigri í höfn.
Varnarleikur Fjölnis og fráköst var það sem reið baggamuninn í kvöld og skók í raun sigurinn en það er nokkuð ljóst að bæði lið munu leggja allt í næsta leik, Fjölnismenn vilja pottþétt slá ÍA út 3-0 á meðan ÍA vill fá amk. einn heimaleik í viðbót og pottþétt vilja þeir knýja fram oddaleik. 

Hjá gestunum í Fjölni voru Kennedy Clement og Lewis Diankulu stigahæstir með 20 stig hvor auk þess sem Lewis reif niður 16 fráköst, fínasta tvöfalda tvenna það.  Viktor Steffensen kom svo á eftir þeim með 12 stig.


Hjá heimamönnum í ÍA var Aamondae Coleman stigahæstur með 21 stig, Srdan Stojanovic kom svo með 17 stig, Þórður Freyr Jónsson með 16, Styrmir Jónasson með 12 og Aron Elvar Dagsson með 10.

Miðað við þessa tvo leiki liðanna í þessu einvígi má alveg hvetja allt áhugafólk um körfubolta til að leggja leið sína í Dalhúsum í Grafarvogi föstudaginn 12. Apríl kl. 19:15 og sjá þriðja leik liðanna, því að bendir allt til þess að það verði spenna, skemmtun og stemning í boði þar þá.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Gunnar Jónatansson)

Tölfræðimolar

-Alls voru dæmdar 45 villur í leiknum, 25 á ÍA og 20 á Fjölnir.

-ÍA tók alls 10 vítaskot í öllum leiknum á meðan Fjölnir fékk 34 vítaskot.

-Fjölnir tók alls 47 fráköst í leiknum, 16 sóknarfráköst og 31 varnarfráköst.

-ÍA tók alls 29 fráköst í leiknum, 8 sóknarfráköst og 21 varnarfráköst.

-Allir leikmenn beggja liði komu við sögu í leiknum.

Umfjöllun / HGH

Viðtöl / Gunnar Jónatansson
Myndir / Jónas H. Ottósson


Fréttir
- Auglýsing -