Fyrrum leikmaðurinn og núverandi sérfræðingur við leiklýsingar á NBA leikjum, Mark Jackson, hefur verið ráðinn næsti þjálfari Golden State Warriors. Jackson var ekki ráðinn í starfið sökum yfirgripsmikillar reynslu sinnar í þjálfarastól en kappinn þótti leiðtogi á velli og hefur fengið góða dóma fyrir störf sín í sjónvarpinu.
Jackson tekur við starfinu af Keith Smart og segja menn fyrir vestan að samningurinn sé til fjögurra ára, eftir þrjú ár geti Jackson þó farið frá klúbbnum en talið er að hann fái um sex milljónir Bandaríkjadala fyrir hverja leiktíð.
Reynsluleysi er eitthvað sem menn hafa bent á vestanhafs í máli Jackson þar sem hann sé að taka við sínu fyrsta NBA liði en að klúbburinn blási á allt slíkt þar sem Jackson hafi aðra sterka kosti með sér eins og leiðtogahæfileikana sem voru hans aðalsmerki sem leikmaður.
Mark Jackson lék í 17 ár í NBA deildinni sem leikstjórnandi, hann lék með New York, LA Clippers, Indiana, Toronto, Utha og Houston. Árið 1988 var hann valinn nýliði ársins og komst 14 sinnum í úrslitakeppnina og situr í 3. sæti listans yfir flestar stoðsendingar í NBA deildinni frá upphafi.
Golden State hafnaði í 12. sæti af 15 á Vesturströndinni eftir venjulega deildarkeppni á yfirstandandi tímabili í NBA og vonast forráðamenn liðsins að hinn margreyndi leikmaður Jackson sé rétti aðilinn til þess að stýra ungu og efnilegu liði Warriors næstu fjögur árin eða svo.



