Snæfell hefur fengið leikstjórnandann Jeb Ivey til þess að klára tímabilið í Hólminum þar sem Sean Burton er óleikfær sökum meiðsla á ökkla. Þetta staðfesti Ingi Þór Steinþórsson þjálfari Snæfells fyrir stundu í samtali við Karfan.is
,,Það var að koma í ljós í dag að Sean Burton yrði frá næstu þrjár vikur það minnsta. Við þessu var búist og því höfum við ákveðið að semja við Jeb Ivey sem við vissum að væri með lausan samning. Ivey verður vonandi í liðinu annað kvöld gegn Keflavík en það er ennþá háð flugsamgöngum til Íslands sökum eldgossins,“ sagði Ingi Þór.
Ivey lék í Finnlandi í vetur með Kataja Basket Club sem hafnaði í 7. sæti í deildarkeppninni og þarf að ferðast frá Finnlandi til Svíþjóðar til þess að komast í flug til Íslands. Ivey lék síðast hér á landi með Njarðvíkingum þar sem hann varð Íslandsmeistari með félaginu árið 2006 eftir úrslitarimmu gegn Skallagrím. Kataja datt síðan út á dögunum í fyrstu umferð úrslitakeppninnar í Finnlandi eftir 3-2 ósigur gegn Kovut sem nú eru 2-0 undir gegn ToPo Helsinki í undanúrslitum deildarinnar.
Viðkvæmur tími til þess að koma inn með nýjan leikmann og þungt fyrir Hólmara að sjá á eftir Burton sem leikið hefur fantavel þessa leiktíðina með 19,3 stig og 7,5 stoðsendingar að meðaltali í leik.



