Skór Allens Iverson voru ekki lengi á hillunni frægu því að nú hefur hans gamla lið, Philadelphia 76ers, boðið honum eins árs samning, samkvæmt óstaðfestum fregnum.
Iverson átti sín bestu ár í Philadelphia þar sem hann hóf ferilinn og lék fyrstu 10 árin. Hann leiddi liðið m.a. í NBA úrslitin árið 2001.
Samkvæmt fregnum funduðu Iverson og umboðsmaður hans með forseta Sixers og þjálfaranum, Eddie Jordan, en svo vildi til að hinn ungi og efnilegi leikstjórnandi Louis Williams kjálkabrotnaði í síðustu viku og því vantaði liðið mann í hans stað.
Eftir hörmungina sem vist hans í Memphis var í upphafi vetrar þar sem hann lenti upp á kant við þjálfara, leikmenn og forráðamenn á mettíma getur hann eflaust hlakkað til þess að koma aftur á fornar slóðir þar sem hann er dýrkaður og dáður af stuðningsmönnum liðsins.