09:44
{mosimage}
(Iverson lét sér nægja í nótt að skora innan við þriggja stiga línuna)
Allen Iverson gerði 35 stig í nótt þegar Denver Nuggets lagði Dallas Mavericks 109-122 í American Airlines Arena í Dallas. Nokkra athygli vekur að Iverson skaut ekki einu þriggja stiga skoti í leiknum. Hann gerði 24 stig í teignum og 11 stig af vítalínunni í 16 vítaskotum. Þá var Iverson einnig með 12 stoðsendingar og 6 stolna bolta. Dirk Nowitzki var stigahæstur hjá Dallas með 32 stig og 12 fráköst fyrir Dallas sem í nótt tapaði sínum öðrum leik í röð.
Joe Johnson var hetja Atlanta Hawks í nótt þegar hann gerði sigurkörfu liðsins gegn Minnesota Timberwolves sem hafa tapað 15 leikjum á leiktíðinni og aðeins unnið tvo. Ósigurinn hlýtur að hafa verið sérlega sár fyrir Timberwolves sem voru yfir 89-88 þegar 2,2 sekúndur voru til leiksloka. Atlanta tók leikhlé og svo fékk Joe Johnson boltann á vítateigslyklinum, stökk upp og setti niður sigurkörfuna. Hawks gerðu aðeins 8 stig í þriðja leikhluta gegn 27 stigum frá Timberwolves og voru því mjög heppnir að ná sigrinum í nótt. Josh Smith var stigahæstur í liði Hawks með 28 stig og 7 fráköst en hetjan Joe Johnson var með 21 stig og 9 fráköst. Craig Smith var stigahæstur í liði Timberwolves með 20 stig.
Miami Heat tapaði sínum fjórtanda leik í nótt er þeir lágu 112-106 á útivelli gegn Portland Trailblazers. Dwyane Wade var nærri þrennunni hjá Miami með 21 stig, 10 fráköst og 9 stoðsendingar. Í liði Portland var Brandon Roy með 25 stig, 6 stoðsendingar og 5 fráköst.
Mynd: AP



