spot_img
HomeFréttirÍvar: Verður gaman að koma aftur á Sauðárkrók

Ívar: Verður gaman að koma aftur á Sauðárkrók

Eftir leik höfðu nokkrir leikmenn og þjálfarar liðanna þetta að segja eftir að Haukar höfðu komið flestum á óvart og komist hjá sópnum fræga. 

Haukur Óskarsson

Þetta var geggjað hérna í kvöld eftir að hafa verið með allt niður um okkur í fyrstu tveimur leikjunum. Ég skoraði vissulega ekkert í fyrri hálfleik en það geta allir skorað í þessu liði og ég tek mín skot ef þau koma og þetta datt í seinni hálfleik hjá mér. Ég eiginlega skil þetta ekki en þegar við höfum engu að tapa þá gerist eitthvað hjá okkur svipað og gegn Keflavík.  Það er eins og eitthvað breytist í hausnum á okkur.

 

Isreal Martin

Við byrjuðum illa í þessum leik og það var okkur dýrt. En ég er ekki áhyggjufullur þetta var bara einn leikur, ég ber virðingu fyrir þessu Haukaliði. Við vinnum núna í okkar hlutum og komum tilbaka. Ég veit að mínir drengir vilja vinna og ég býst bara við því að þeir spili 100% í næsta leik.

 

Emil Barja (Lykil-maður leiksins)

Já þetta var liðsheildin sem skóp þetta í kvöld. Það er einmitt sem hefur vantað hjá okkur og svo vörnin. Við hertum vörnina til muna og fórum grimmir í öll fráköst. Þetta var alvöru barátta hjá okkur.  Í raun er þetta svolítið eins og á móti Keflavík og við erum ekkert hættir, nú förum við heim og knýjum oddaleik. Eftir að hafa mætt ragir í fyrstu tvo leikina þá mættum við tilbúnir í þennan og við gerum það aftur í næsta.

 

Helgi Viggósson

Þetta var ekki nógu gott hjá okkur. Við hefðum þurft að keyra meira á körfuna hjá þeim í stað þess að sætta okkur við þessi skot fyrir utan. Við höfum reyndar verið að hitta úr þessum skotum og því ekki að halda því áfram en mín skoðun er sú að við áttum að ráðast meira á körfuna. En þetta er ekkert búið, nú fyllum við Hafnarfjörðinn af Skagfirðingum og klárum þetta bara þar á miðvikudag.

Ívar Ásgrímsson

Menn komu brjálaðir til leiks í kvöld en það var eins og það væri miklu léttara yfir liðinu. Við erum að berjast fyrir hverjum einasta bolta og við töluðum einmitt um það að fráköst og laus bolti snýst bara um vilja að ná þeim. Nú þurftu menn að spíta í lófana og mínir menn svöruðu því. Francis átti hörku leik og var að djöflast og berjast eins og hann hefur veirð í vetur.  Nú getum við sett ágæta pressu á Stólana því þeir þurfa aðeins að skoða sinn leik og ég segi bara að það verður hrikalega gaman að koma aftur hingað á Sauðárkrók.

Fréttir
- Auglýsing -