spot_img
HomeFréttirÍvar: Gríðalega erfitt að spila á þessum stöðum

Ívar: Gríðalega erfitt að spila á þessum stöðum

 

Í gær var dregið í riðla hjá FIBA í undankeppni EuroBasket kvenna 2019 en lokakeppnin mun fara fram í Serbíu og Lettlandi. Undankeppnin fer fram þangað til og hefst í nóvember, með leikgluggum 6.-16. nóvember og svo í 5.-15. febrúar 2018 og 12.-22. nóvember 2018 þar sem leiknir eru tveir leikir í hverjum glugga.

 

Liðin sem Ísland leikur með eru í styrkleikaröð í A-riðli eru: (Ísland í 3. styrkleikaflokki af fjórum liðum)
Slóvakía, Svartfjallaland, Ísland og Bosnía.

 

Við heyrðum í þjálfara Íslands, Ívari Ásgrímssyni og spurðum hann út í hvernig honum litist á dráttinn og hvernig hann meti möguleika liðsins.

 

Hvernig líst þér á dráttinn?

"Það var nú alltaf ljóst að þetta yrðu alltaf erfið lið sem við myndum spila á móti en þessi riðill sem við drógumst í er gríðarlega erfiður og gríðarleg körfuboltamenning á öllum þessum stöðum. Erfið ferðalög og mikil hefð á þessum stöðum."

"Hefðum kannski getað dregist á móti betri liðum en það sem er erfitt eru ferðalögin og þessi mikla hefð. Það er gríðalega erfitt að spila á þessum stöðum, mikil harka og sterkir leikmenn. Þekkjum Slóvakíu frá síðustu undankeppni og það er gríðarlega sterkt lið, það sem þessi lið hafa líka er að þau eru oftast með sterka kana í sínum lansliðum sem hafa fengið ríkisborgararétt og það verður gaman að sjá hvaða liði þessi lönd stilla upp."

"Það sem mér finnst kannski verst í þessum riðli er að ég hefði viljað fá slakara lið úr síðasta styrkleikaflokki. Það verður samt gaman að kljást við þessi góðu lið og markmiðið er auðvitaða að hækka í styrkleikaröðunni og halda áfram að bæta okkar leik."

 

Hvaða möguleika sérð þú fyrir íslenska liðið?

"Möguleikar okkar liggja í því að vinna á heimavelli, við lögðum Ungverja síðast og ættum vonandi að geta náð að stela heimasigri á móti Svartfellingum. Við stóðum okkur líka vel á móti Slóvakíu á heimavelli síðast er við spiluðum á móti þeim en við sjáum til hvað við getum bætt okkur mikið. Ljóst er samt að við höfum verið að missa lykilmenn frá okkur eins og t.d. Gunnhildi, Pálínu og Bryndísi og höfum verið að taka inn yngri stelpur. Fáum aftur á móti Helenu núna aftur inn og svo bætist Hildur björg við liðið lika. Svo má búast við að við fáum t.d. Margréti Rósu inn eftir næsta ár og þetta styrkir allt liðið."

Munum við sjá miklar breytingar á liðinu?

"Það hafa verið gerðar talsverðar breytingar á liðinu síðasta árið og ég reikna með að við munum reyna að byggja á því liði sem við höfum verið að spila á í síðustu leikjum. Mikið af ungum stelpum hafa fengið eldskírn í þeim verkefnum sem við höfum verið í og við höfum prófað töluvert af leikmönnum en ég reikna t.d. með að þeir leikmenn sem verða valdir til að fara til Svíþjóðar munu skipa að mestu það lið sem mun taka þátt í verkefnum næst vetrar."

Fréttir
- Auglýsing -