Ívar Ásgrímsson þjálfari Hauka segir sína menn hafa fengið trú eftir tapið gegn Grindavík í síðustu umferð fremur en að leikurinn hafi setið þungt á sínum mönnum. Trúin kristallaðist í kvöld þegar Haukar kjöldrógu ÍR í Hertz-hellinum.
Öruggur sigur á ÍR í kvöld, voru menn að hlaupa af sér hornin eftir Grindavíkurleikinn?
„Nei nei, menn fengu frekar einhverja trú eftir Grindavíkurleikinn og það var mjög mikilvægt. Við vorum ekki svekktir eftir þann leik heldur vissum að við gætum unnið þá, úrslitin í þeim leik voru ekki endilega allt, spilamennskan færði okkur trú eftir að hafa ekkert verið neitt voðalega góðir á undirbúningstímabilinu.“
Um leikinn sagði Ívar að góð byrjun ÍR gæti ekki varað alla fjóra leikhlutana:
„Við klárum í raun leikinn í öðrum leikhluta, ÍR hitti rosalega í fyrsta leikhluta og voru að setja skot allstaðar niður en við vissum það og ræddum að þetta gæti ekki haldið áfram og það gekk eftir enda hengdum við ekki haus,“ sagði Ívar en þá að máli málanna kannski, Kári Jónsson með dúndur frammistöðu í kvöld aðeins 16 ára gamall.
„Ég er búinn að þjálfa Kára frá því hann var polli og veit alveg hvað hann getur. Við fórum í svæðisvörn eftir fyrsta leikhluta og þá nýttist hann okkur vel. Grindvíkingar voru t.d. fljótir að refsa okkur með því að pósta Kára upp en það er ekki þannig hjá ÍR svo Kári kom sterkur inn og sérstaklega í svæðinu, hann er klókur og skilur leikinn, staðsetur sig vel og er frábær sóknarmaður,“ sagði Ívar sem sá svo tvo unga menn fædda árið 1996 gera sín fyrstu stig í úrvalsdeild undir sinni stjórn en það voru þeir Kristján Leifur Sverrisson og Hjálmar Stefánsson.
„Ég er með unga og flotta stráka sem hafa alist upp við það að vinna titla og þekkja ekkert annað en að vinna, sigursælir yngriflokka leikmenn og það mögulega minnkar þetta stökk upp í meistaraflokkinn,“ sagði Ívar en Kári er enn gjaldgengur í 11. flokk en þeir Kristján og Hjálmar leika með drengja- og unglingaflokki félagsins.
„Ég er kominn með góðan grunn til að byggja á, sigurinn í kvöld gefur sjálfstraust sem er mikilvægt enda erfiður leikur gegn Snæfell framundan, við tökum þetta bara einn leik í einu, frí á morgun, létt æfing á laugardag og svo bara á undirbúningur fyrir Snæfellsleikinn.“
Með sigrinum í kvöld eru Haukar í 2.-6. sæti deildarinnar eins og Grindavík, Keflavík, Þór Þorlákshöfn og Njarðvík en Haukar hafa leikið einum leik meira en Keflavík, Þór og Njarðvík.



