Körfuknattleikssamband Íslands og DHL Express á Íslandi undirrituðu áðan nýjan samstarfs- og styrktarsamning sem gerir DHL einum að aðalstyrktaraðilum körfuknattleiks á Íslandi til næstu þriggja ára.
Við þetta sama tilefni voru iðkendur úr yngri flokkum KR mættir til að sjá Hafþór Júlíus Björnsson, sjálft Fjallið, Steinda Jr. og Illuga Gunnarsson Íþróttamálaráðherra keppa í troðslukeppni. Svo fór að Illugi hafði sigur úr býtum en hann og Stendi fengu að troða af trampólíni á meðan Hafþór gerði þetta af gamla skólanum.
Í tilkynningu frá KKÍ og DHL segir um nýja samningin:
Körfuboltinn er í mikilli sókn hér á landi en sem kunnugt er tryggði karlalandsliðið sér þátttökurétt á lokamóti Evrópukeppninnar sem fram fer á næsta ári.
Í tilefni samningsins voru þeir Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, Hafþór Júlíus Björnsson, einn sterkasti maður heims, og grínistinn Steindi Jr. fengnir til að reyna sig í troðslukeppni og þriggja stiga keppni í körfubolta í DHL-höllinni í Frostaskjóli.
Það er ekki að ástæðulausu sem þessir þrír kappar voru valdir til að keppa sín á milli í körfubolta. Hafþór Júlíus var einn efnilegasti körfuknattleiksmaður landsins og lék í yngri landsliðum Íslands áður en hann snéri sér að kraftlyftingum. Illugi Gunnarsson er ráðherra íþróttamála en Steindi Jr. lék sér stundum í körfubolta á sínum yngri árum – að því að best er vitað.
Til að gæta allrar sanngirni, og til að vega upp hæðar- og stærðarmun, fengu menntamálaráðherra og grínistinn að stökkva á trampólíni til að reyna að troða boltanum ofan í körfuna.
Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, og Atli Freyr Einarsson, framkvæmdastjóri DHL Express á Íslandi, dæmdu keppnina um leið og þeir undirrituðu samstarfssamninginn.
Mynd/ [email protected] – Atli t.v. og Hannes t.h. við undirritun samningsins í dag.