Samkvæmt frétt Feykis hefur körfuknattleiksdeild Tindastóls komist að samkomulagi við fyrrum aðalþjálfara félagsins, Ísrael Martin, um að hann taki við sem framkvæmdarstjóri. Mun hann þá sjá um daglegan rekstur félagsins, vera aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla sem og sjá um þjálfun u-20 kvenna.
Martin þjálfaði síðast Tindastól leiktímabilið 2014-2015 og skilaði þá flottum árangri. Liðið endaði í 2. sæti deildarinnar og fór alla leiðina í úrslit Íslandsmótsins þar sem það tapaði fyrir KR. Hann var einnig valinn þjálfari ársins það árið.
Á síðasta tímabili þjálfaði hann Bakken Bears í dönsku úrvalsdeildinni. Þar koma hann liðinu einnig í úrslit og var einnig valinn þjálfari ársins.