Tindastóll lagði í kvöld bikarmeistara Snæfells í spennandi leik á Króknum þar sem Cedric Isom fór á þvílíkum kostum með 48 stig. Þegar rúm mínúta var eftir var staðan 91 – 91, en Stólarnir sem voru komnir í bónus fór þá ótt og títt á línuna og innsigluðu sigurinn þar án svars frá gestunum. Lokatölur 99 – 91 í frábærum körfuboltaleik.
Snæfell mætti á Krókinn án Hlyns Bæringssonar, en hjá heimamönnum vantaði Sveinbjörn Skúlason vegna meiðsla. Axel Kárason og Svavar Birgisson mættu ekki til leiks fyrr en vel var liðið á fyrri hálfleik þar sem flugi þeirra norður var seinkað um einn og hálfan tíma. Því byrjuðu hjá Stólunum þeir Hreinn, Rikki, Cedric, Helgi Rafn og Donatas. Hjá gestunum voru það Jón Ólafur, Martins, Sigurður, Emil og Sean sem hófu leik.
Þeir mættu vel stemmdir til leiks því fyrstu þrjár körfurnar voru þeirra og það allt þriggja stiga. Sean bætti við tveimur vítum áður en tveir þristar fylgdu í kjölfarið. Stólarnir höfðu aðeins gert 4 stig á fyrstu fjórum mínútunum og Kalli tók leikhlé og reyndi að starta þeim í gang. Það hafðist því heimamenn héldu í við Snæfell það sem eftir lifði leikhlutans, en staðan að honum loknum var 13 – 27.
Svipaður munur skildi liðin að í byrjun annars leikhluta. Eftir fjórar mínútur var enn 13 stiga munur, 21 – 34. Þá fóru Stólarnir loksins að sýna aðeins klærnar, tvær þriggja stiga körfur í röð frá Helga Frey og Rikka og síðan fjögur stig frá Isom minnkuðu muninn í þrjú stig. Á þessum tímapunkti keyrðu Stólarnir nokkuð á reynsluminni leikmönnunum, en það virtist ekki koma að sök. Snæfell hélt þó forskotinu allt fram á síðustu mínútu hálfleiksins, en fjögur síðustu stigin voru Stólana og náðu þeir að jafna leikinn í 42 – 42 með þeim. Leikhlutarnir í fyrri hálfleik voru eins og svart og hvítt, í fyrsta leikhluta hittu Snæfellsmenn mjög vel á meðan ekkert gekk hjá heimamönnum. Síðan snérist þetta við í öðrum leikhluta og eftir algjört andleysi Tindastólsmann í upphafi höfðu þeir komið sér í jafna stöðu í hálfleik. Stóru mennirnir hjá Snæfelli, þeir Sigurður og Jón Ólafur voru báðir komnir með þrjár villur og sömu sögu var að segja af Hreini hjá Tindastóli. Isom var kominn með 13 stig í hléinu, en hinu megin var Sean með 11 og Sigurður 10.
Stólarnir komu grimmir til leiks í síðari hálfleik og náðu að komast yfir 48 – 45. Síðan skiptust liðin á að hafa forystu þar til í stöðunni 53 – 54 að Isom setti í fluggírinn, skoraði þrjá þrista og Rikki setti niður tvö stig að auki og Tindastóll skyndilega komið með 10 stiga forskot. Ingi Þór tók leikhlé fyrir sína menn sem náðu í kjölfarið að svara fyrir sig með sjö stigum í röð. Stólarnir létu það ekki slá sig út af laginu og settu niður 6 síðustu stig þriðja leikhluta og leiddu því með 9 stigum, 70 – 61 og tíu mínútur eftir. Jón Ólafur fékk sínu fimmtu villu á þessum kafla og í kjölfarið tæknivillu á bekkinn. Það blés því ekki byrlega fyrir gestina þegar haldið var inn í síðasta fjórðunginn.
En þá mættu þeir Sean Burton og Cedric Isom endanlega til leiks. Það rann á þá æði á köflum. Sean skoraði þrjár þriggja stiga körfur fyrir Snæfell á skömmum tíma í upphafi leikhlutans og þurfti varla yfir miðju til þess!! Síðan setti Emil niður þrist og þegar fimm mínútur voru eftir var staðan orðin jöfn 77 – 77. Nokkur hiti var hlaupinn í menn og í einni sókn Snæfells lá Helgi Rafn Tindastólsmaður í gólfinu eftir að virtist högg frá Martins Berkis. Hvorugur dómarinn náði að sjá það og slapp hann því með skrekkinn. Eftir þetta tók Isom leikinn í sínar hendur, en gestirnir héldu áfram að drita niður þriggja stiga körfum. Þeir náðu því að síga örlítið fram úr og eftir eina slíka frá Sean leiddu þeir með þremur stigum 86 – 89 og tæpar tvær mínútur eftir. Enn fækkaði í liði Snæfells því Sveinn Arnar fékk sína fimmtu villu er Isom reif sig í gegn og skoraði og fékk víti að auki sem hann nýtti. Snæfell náði ekki að skora í næstu sókn og í staðinn skoraði Isom aftur og Tindastóll komið yfir, 91 – 89. Martins Berkins jafnaði leikinn þegar rúm mínúta var eftir, en það voru síðustu stig gestanna eins og áður segir. Isom setti niður gríðarlega mikilvægan þrist í næstu sókn og á lokamínútunni var Snæfellsmönnum mislagðar hendur, Stólarnir náðu mikilvægum sóknarfráköstum og eina leið Snæfells var að senda þá á vítalínuna og þrátt fyrir að fimm víti færu forgörðum kom það ekki að sök og Tindastóll innbyrti gríðarlega mikilvægan og nokkuð óvæntan sigur, 99 – 91. Isom átti ofurmannlegan leik í kvöld og setti niður 48 stig, þar af 21 í fjórða fjórðungi. Næstir komu Donatas og Rikki með 15 stig hvor og loksins hrökk Rikki í gang. Ef undan er skilinn fyrsti leikhluti skiluðu allir heimamenn sínu mjög vel og gaman að sjá yngri leikmennina komu með mikinn kraft inn í leikinn. Hjá gestunum var Sean Burton stigahæstur með 33 stig og var hann eins og vélbyssa í fjórða fjórðungi, en þá skoraði hann fimm þrista. Næstir honum komu Sigurður með 18 og Martins með 17. Snæfellingar lentu í villuvandræðum og háði það þeim nokkuð, sérstaklega undir körfunni.
Stigaskor: Isom 48, Rikki 15, Donatas 15, Helgi Rafn 7, Helgi Freyr 5, Axel 4, Einar Bjarni 2, Svavar 2 og Sigmar 1.
Snæfell: Sean 33, Sigurður 18, Martins 17, Jón Ólafur 13, Emil 6 og Sveinn 3.
Myndasafn eftir Hjalta Árnason
Dómarar leiksins voru þeir Rögnvaldur Hreiðarsson og Einar Þór Skarphéðinsson og áttu þeir góðan leik.
Áhorfendur um 200 og fögnuðu vel í leikslok.
Texti: Jóhann S.
Vegna erfiðleika með netsamband í kvöld er tölfræði leiksins ekki enn komin á netið.
Mynd: Hjalti Árnason



