spot_img
HomeFréttirÍslenskur sigur í hádramatískum tvíframlengdum leik

Íslenskur sigur í hádramatískum tvíframlengdum leik

Ísland sótti fyrsta sigur sinn á Norðurlandamóti yngri flokka þetta árið er U16 landslið drengja vann góðan sigur á Finnlandi. Lið Finnlands vann þrjú gull og eitt silfur á mótinu í fyrra og eru gríðarlega sterkir. 

 

Gangur leiksins: 

 

Þrátt fyrir nokkuð slaka byrjun Íslands gafst liðið aldrei upp og tókst að komast yfir í fyrsta sinn í byrjun fjórða leikhluta. Við tók ótrúlega spennandi lokakafli þar sem Ísland var þó skrefinu á undan allan leikhlutann. Ísland átti lokasóknina og gat tryggt sigur, skot frá Benóný Svani vildi hinsvegar ekki ofan í og framlengja þurfti leikinn. 

 

Ekki tókst að skilja liðin í sundur í fyrri framlengingunni og þurfti því að framlengja aftur. Í seinni framlenginunni skiptust liðin á forystunni en Ísland tryggði að lokum sigur 97-95 eftir hádramatískan lokasprett. 

 

Tölfræðin lýgur ekki: 

 

Mikið var um tapaða bolta í leiknum eða 68 í heildina. Íslenska liðið tók 27 sóknarfráköst í leiknum en Finnar stálu 26 boltum í leiknum sem gaf þeim fleiri skot í leiknum en það dugði ekki til. 

 

Hetjan: 

 

Íslenska liðið býr yfir mikilli breidd og spiluðu margir leikmenn mjög mikið. Þeir Gabríel Boama og Sveinn Birgisson voru sterkastir hjá Íslandi í kvöld. Gabríel dreif liðið áfram í framlengingunum og var með 18 stig og 8 fráköst. Sveinn var mjög skilvirkur sóknarlega, hitti vel, fyllti uppí tölfræðina og endaði með 16 stig. 

 

Taka þarf fram frammistöðu Ástþórs Atla Svalasonar sem var algjör yfirburðarleikmaður í fyrri hálfleik og var með 16 stig. Hann meiddist hinsvegar fyrir lok annars leikhluta er hann skall aftur á hnakkann. Til að forðast frekari áhættu var ákveðið að Ástþór þyrfti að fara í tékk á sjúkrahús en fyrstu fregnir herma að meiðslin séu ekki eins alvarleg og við fyrstu sýn. 

 

Tölfræði leiksins

 

Myndasafn 

 

Viðtöl við Ágúst þjálfara og Gabríel:

 

Fréttir
- Auglýsing -