spot_img
HomeFréttirÍslenskur sigur eftir tvíframlengdan rússíbana

Íslenskur sigur eftir tvíframlengdan rússíbana

Ísland var rétt í þessu að tryggja sér sigur á Eistum á Norðurlandamótinu er liðin mættust í U18 karla. Um tvíframlengdan baráttuslag var að ræða þar sem íslenska liðið stóð vel fyrir sínu og innbyrti góðan sigur þrátt fyrir að vera æði lengi í gang. Lokatölur 103-102 Íslandi í vil þar sem Tindastólsmaðurinn Pétur Rúnar Birgisson gerði sigurstigin eftir körfu úr hraðaupphlaupi. Eins og gefur að skilja gekk á ýmsu í leiknum en íslenska liðið stóð af sér brotsjóinn og kláruðu leikinn með myndarbrag.
 
Dagur Kár Jónsson komst í gang í síðari hálfleik svo um munaði en hann gerði 37 stig í kvöld og tók 6 fráköst, Maciej Baginski bætti við 27 stigum og þá var Jón Axel Guðmundsson með 22 stig.
 
Eistar hófu leika með þrist en Dagur Kár Jónsson tók þá kipp og skoraði 10 af 16 stigum Íslands í leikhlutanum, í tvígang skoraði Dagur og fékk villu að auki og Ísland leiddi 12-11. Ísland komst síðan í 16-14 en þá seig í okkar menn og Eistar lokuðu fyrsta leikhluta með 8-0 áhlaupi og leiddu 16-22 eftir fyrstu tíu mínúturnar. Undir lok fyrsta leikhluta var það einstaklingsframtakið sem réði ríkjum hjá okkar mönnum og það veit ekki á gott til lengdar.
 
Íslenska liðið reyndi fyrir sér í svæðisvörn í öðrum leikhluta og Maciej Baginski var að reyna mikið í íslenska liðinu en það vildi ekkert niður. Eistar fráköstuðu betur og lifðu vel af þeirri iðju og Íslendingar gerðu ekki sín fyrstu stig í öðrum leikhluta fyrr en eftir tæpar fimm mínútur. Jón Axel Guðmundsson færði liðinu nauðsynlegt vítamín undir lok fyrri hálfleiks en hann og Eysteinn Bjarni Ævarsson börðust vel og það smitaði út frá sér.
 
Maciej Baginski fann loks skotin sín, Jón Axel Guðmundsson fór að keyra sterkt að körfunni og smátt og smátt birti yfir liðinu en Eistar leiddu engu að síður 32-37 í leikhléi. Dagur Kár var með 14 stig fyrir Ísland í hálfleik og Maciej 7.
 
Íslenska liðið færði vörn sína framar á völlinn í síðari hálfleik, okkar menn freistuðu þess að þvinga Eista í mistök og það gekk ágætlega. Íslensku vörninni óx ásmegin með hverri mínútunni og hélt Eistum stigalausum í fjóra og hálfa mínútu í þriðja leikhluta. Eysteinn Bjarni var til fyrirmyndar í hlutverki jaxlsins en hann kom Íslandi yfir 38-37 með sóknarfrákasti og körfu að auki.
 
Ísland opnaði þriðja leikhluta 8-0 en eins og fyrr í leiknum var ekki lengi að bíða sveiflunnar, Eistar tóku sinn sprett og leiddu 46-51 fyrir fjórða og síðasta leikhluta. Sá þriðji var jafn og einkenndist af mikilli baráttu og ljóst að fjórði leikhluti yrði æsispennandi.
 
Eistar höfðu frumkvæðið framan af fjórða leikhluta og náðu muninum upp í níu stig en þá fóru okkar menn að dragast nærri. Dagur Kár og Jón Axel voru sterkir og Ísland náði að jafna metin 63-63. Dagur Kár var aftur á ferðinni og jafnaði 68-68 með kafloðnum þrist þegar rúmar tvær mínútur lifðu leiks. Lokaspretturinn reyndist hjartastyrkjandi svo um munaði því Ísland lenti undir 70-74 þegar rúm mínúta var eftir en strákarnir jöfnuðu 76-76 þegar 24 sekúndur lifðu leiks en það gerði Jón Axel með tveimur pressuvítum. Aftur komust Eistar yfir og nú 76-78 þegar 7,2 sekúndur lifðu leiks. Næsta íslenska sókn var vel útfærð og lauk með því að Eysteinn Bjarni fór eftir endalínunni og jafnaði 78-78 svo framlengja varð leikinn.
 
Ísland var mun sterkari aðilinn í fyrri framlengingunni og leikar stóðu 89-83 þegar tvær mínútur lifðu leiks og allt benti til þess að okkar menn myndu landa sigri. Eistar dóu ekki ráðalausir, hver Maríubænin á fætur annarri sem send var á loft rataði niður og m.a. þristur sem fylgdi einnig víti og eftir að hafa sent íslenska liðið ótal sinnum á vítalínuna tókst Eistum að jafna 96-96 svo framlengja varð öðru sinni.
 
Ísland varð fyrir áfalli í annarri framlengingunni þegar Hugi Hólm fékk sína fimmtu villu og henni fylgdi síðar tæknivilla, Eistar þökkuðu pent fyrir sig og komust í 96-100 þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir. Magnús Már Traustason og Pétur Rúnar Birgisson komu svellkaldir inn í íslenska liðið í annarri framlengingunni og Magnús Már kom Íslandi í 101-100 með góðri körfu í teignum. Eistar fóru yfir 101-102 og næstu sóknir buðu ekki uppá körfur fyrr en Ísland komst í hraðaupphlaup sem lauk með körfu af harðfylgi hjá Pétri Rúnari sem kom Íslandi í 103-102 þegar 2,7 sekúndur lifðu leiks! Eistar fengu erfitt skot sem vildi ekki niður og íslenska liðið fagnaði innilega þessum magnaða spennusigri.
 
Dráttarklárar íslenska liðsins voru Dagur Kár, Jón Axel og Maciej Baginski en þeir Pétur Rúnar og Magnús Már áttu einnig sterkar rispur sem og Eysteinn Bjarni sem barðist gríðarlega vel í leiknum. Sterkur liðssigur eftir þunga byrjun okkar manna.
 
 
Byrjunarlið Íslands: Dagur Kár Jónsson, Þorgeir Blöndal, Maciej Baginski, Hugi Hólm og Tómas Hilmarsson.
 
Mynd/ [email protected] – Dagur Kár Jónsson var sterkur í fyrri hálfleik en fílhraustur í þeim síðari og skoraði 37 stig í kvöld.
  
Fréttir
- Auglýsing -