Ísland lá óþarflega stórt gegn Dönum í U16 ára kvenna á Norðurlandamótinu í körfuknattleik. Lokatölur voru 54-74 Dönum í vil en fyrstu 30 mínútur leiksins voru jafnar og spennandi en Danir tóku öll völd á lokasprettinum og uppskáru verðskuldaðan sigur. Margrét Rósa Hálfdánardóttir var stigahæst í íslenska liðinu í kvöld með 15 stig en þetta var annar tapleikur 16 ára stelpna á mótinu sem fyrr í dag lágu gegn Norðmönnum.
16 ára stelpurnar voru ákafar í sínum varnarleik strax frá fyrstu mínútu og gaf það vel. Jafnt var á öllum tölum í fyrsta leikhluta og íslensku bakkararnir voru að valda töluverðum usla í pressuvörn sinni og unnu nokkra góða bolta.
Í stöðunni 12-12 höfðu 9 af þessum 12 stigum Íslands komið af vítalínunni og svo stelpurnar voru ekki smeykar við að keyra í danska teiginn, síður en svo. Ísland átti svo fínan lokasprett og leiddi 20-17 að loknum fyrsta leikhluta.
Ingunn Embla Kristínardóttir opnaði annan leikhluta með þriggja stiga körfu og kom Íslandi í 23-17 en Danir svöruðu fljótt og minnkuðu muninn í 23-21. Þegar leið á annan leikhluta óx pressa Dana á íslensku bakverðina sem gerðust ansi mistækir uns Margrét Rósa Hálfdánardóttir tók til sinna ráða og gerði sex íslensk stig í röð og breytti stöðunni í 36-29. Svæðisvörn Íslands var á hinum endanum að gefa Dönum of mörg auðveld þriggja stiga skot og Danir þökkuðu fyrir sig með því að smella þeim niður en Ísland hafði frumkvæðið og leiddi 40-34 í hálfleik þar sem Margrét Rósa var komin með 10 stig, Aníta Eva Viðarsdóttir var með 8 stig og Lovísa Falsdóttir var kominn með 7 stig.
Mikil barátta var í þriðja leikhlutanum og lítið skorað framan af en Lovísa Falsdóttir jók forystu Íslands upp í 7 stig með þriggja stiga körfu og staðan 47-40 Íslandi í vil. Þrátt fyrir stöðuna var Jón Halldór Eðvaldsson þjálfari liðsins ekki sáttur við grundvallarmistök sinna leikmanna þar sem þær gleymdu trekk í trekk að stíga út og Danir rökuðu inn fráköstum. Stelpurnar fengu hárþurrkumeðferðina hjá Jóni í leikhléinu en það voru samt Danir sem komu sterkari út úr leikhléinu.
Í stöðunni 49-46 gerðu Norðmenn næstu 8 stig í röð og leiddu 49-54 fyrir fjórða og síðasta leikhlutann og ekki frá því að nokkuð óöryggi væri farið að gera sér hreiðurstað í íslenska liðinu.
Danir voru algerlega einráðir í fjórða leikhluta, snögglega var staðan orðin 51-61 Dönum í vil og danska vörnin gersamlega að kæfa sóknaraðgerðir Íslands. Náðarhöggið kom svo þegar 3 mínútur voru til leiksloka þegar Danir settu niður einn af fjölmörgum þristum sínum í fjórða leikhluta og breyttu stöðunni í 54-71. Lokatölur reyndust svo 54-74 og Ísland skoraði því ekki stig þrjár síðustu mínútur leiksins.
Niðurstaðan töluverð vonbrigði eftir hörkuleik millum liðanna fyrstu 30 mínútur leiksins en á lokasprettinum voru Danir einfaldlega númeri of stórir. Á lifandi tölfræðinni frá mótinu segir að lokatölur leiksins hafi verið 55-73 Dönum í vil en réttar lokatölur eru 54-74 eins og fyrr greinir.
Margrét Rósa Hálfdánardóttir gerði 15 stig í íslenska liðinu og Lovísa Falsdóttir kom henni næst með 10 stig.
Ljósmynd/ Margrét Rósa gerði 15 stig fyrir íslenska U16 ára liðið í dag.



