Íslendingaslagur var í sænsku úrvalsdeildinni í kvöld, eins og áður hefur komið fram var Haukur Helgi Pálsson reyndar í borgaralegum klæðum í kvöld þegar LF Basket og Sundsvall Dragons áttust við en um hörkuleik var að ræða. LF hafði nauman 74-72 sigur í leiknum og komst upp fyrir Sundsvall með sigrinum. Sigurstig leiksins komu þegar tæpar tvær mínútur voru eftir af leiknum og var ekkert skorað eftir það.
Haukur Helgi lék ekki með sökum sýkingar í fæti og missir sennilega af leik LF næsta föstudag líka vegna þessa. Alex Wesby fyrrum leikmaður Sundsvall reyndist gamla liðinu sínu erfiður en hann skoraði 23 stig fyrir LF í kvöld og tók 6 fráköst. Shane Edwards var stigahæstur hjá Sundsvall með 19 stig.
Hlynur Bæringsson var með myndarlega tvennu í liði Sundsvall en hann skoraði 14 stig og tók 20 fráköst og þá var hann einnig með 3 stoðsendingar í leiknum. Ægir Þór Steinarsson gerði 6 stig og tók 4 fráköst en í kvöld vildi boltinn ekki niður hjá Jakobi Erni Sigurðarsyni sem skoraði tvö stig. Liðsmenn Sundsvall voru skítkaldir í langskotunum, aðeins tveir þristar niður í 21 tilraun! Ragnar Nathanaelsson fékk svo að spreyta sig í rúmar tvær mínútur í kvöld en skoraði ekki.
Sundsvall færist eftir leikinn í kvöld í 6. sæti deildarinnar með 34 stig en LF hoppar upp í það fimmta með jafn mörg stig en hefur betur innbyrðis gegn Sundsvall.
Haukur Helgi hefur því með LF unnið alla fimm Íslendingaslagina í sænsku deildinni til þessa.
Mynd/ Haukur og félagar í LF splæstu í mynd í höfuðstaðnum hér fyrr á leiktíðinni eftir sigur gegn Solna Vikings.



