Í mörg horn var að líta þessa helgina hjá Íslendingum sem leika erlendis en þeirra atkvæðamestur að þessu sinni var Hörður Axel Vilhjálmsson sem gerði 28 stig í sigri MBC í þýsku Pro A deildinni sem er næstefsta deildin í Þýskalandi.
Þýska Pro A deildin (22. janúar)
Mitteldeutcher BC 102-94 USC Heidelberg
Hörður Axel Vilhjálmsson gerði 28 stig í liði MBC á rúmum 32 mínútum en kappinn setti niður 5 af 10 þriggja stiga skotum sínum í leiknum. Þá var Hörður einnig með 5 stoðsendingar og 2 fráköst. MBC trónir á toppi Pro A deildarinnar í Þýskalandi með 28 stig.
Sænska úrvalsdeildin (23. janúar)
Sundsvall Dragons 78-84 Södertalje Kings
Jakob Örn Sigurðarson var stigahæstur í liði Sundsvall með 20 stig og 4 stoðsendingar og Hlynur Bæringsson bætti við 14 stigum og 8 fráköstum. Pavel Ermolinski er enn meiddur. Brynjar Þór Björnsson tekur svo á móti Loga Gunnarssyni í kvöld þegar Jamtland fær Solna Vikings í heimsókn og Helgi Magnússon verður í eldlínunni þegar 08 Stockholm HR tekur á móti Uppsala Basket.
Úrvalsdeild kvenna í Slóvakíu (21. janúar)
Samorin 51-91 Good Angels
Helena Sverrisdóttir og félagar í Good Angels hafa unnið 14 deildarleiki í röð í Slóvakíku og tróna ósigraðar á toppi deildarinnar. Um helgina burstuðu Good Angels lið Samorin sem er í 3. sæti deildarinnar. Tölfræði leiksins er ekki aðgengileg en á dögunum var Helenu og liðsfélögum að berast liðsstyrkur í tékkneskum leikmanni að nafni Hana Horakova.
Bandaríski háskólaboltinn – NCAA II (21. janúar)
Catawba 87-91 Newberry (framlengt)
Ægir Þór Steinarsson og Tómas Heiðar Tómasson voru báðir í byrjunarliði Newberry í leiknum. Framlengja varð þennan spennuslag þar sem Tómas skoraði 7 stig og Ægir 6. Tómas var einnig með eitt frákast og eina stoðsendingu í leiknum en Ægir bætti við 3 fráköstum og 8 stoðsendingum. Eftir sigurinn um helgina er Newberry í 4. sæti SAC riðilsins (South Atlantic Conference).
Danska úrvalsdeildin (22. janúar)
Horsens IC 94-91 Falcon
Sigurður Þór Einarsson var í byrjunarliði Horsens og skoraði 6 stig í leiknum, var með 1 stolinn bolta, 1 frákast og 1 stoðsendingu. Horsens er í 6. sæti dönsku deildarinnar með 7 sigra og 13 tapleiki.
SISU 81-68 Værlöse
Axel Kárason skoraði 12 stig í liði Værlöse og tók 11 fráköst en eftir tap helgarinnar er Værlöse í 7. sæti deildarinnar með 14 stig eins og Horsens. Reyndar eru tvö ofantalin Íslendingalið og það þriðja, Aabyhoj öll með 14 stig í 6.-8. sæti deildarinnar.
Norska úrvalsdeildin (kk og kvk)
Valur Ingimundarson stýrir karla- og kvennaliðum Ammerud í efstu deildum norska boltans. Karlalið Ammerud fékk skell á sunnudag þegar liðið tapaði 93-58 á útivelli gegn Baerum Basket en kvennalið félagsins tapaði naumlega á heimavelli síðastliðinn föstudag, 48-51, þegar Ullern kom í heimsókn. Kvennaliðið er sem stendur í 3. sæti deildarinnar með 8 sigra og 4 tapleiki.