spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild karlaÍslandsmeistararnir unnu glænýtt Stjörnulið

Íslandsmeistararnir unnu glænýtt Stjörnulið

Stjörnumenn tóku á móti Íslandsmeisturum Vals í Umhyggjuhöllinni í Garðabæ í gærkvöldi, fimmtudag. Stjörnumenn frumsýndu þrjá nýja leikmenn í leiknum, en þeir William Gutenius, Ahmad Gilbert og Dagur Kár Jónsson voru allir á skýrslu hjá heimamönnum.

Gestirnir byrjuðu leikinn talsvert betur, komust í 21-9 í fyrsta leikhluta, og höfðu níu stiga forskot eftir hann, 12-21. Sama forysta hélst inn í hálfleik, 31-40.

Stjörnumenn komu betur inn í seinni hálfleik, og söxuðu smátt og smátt á forskot Vals og komust loks yfir í fjórða leikhluta, 63-61. Valsmenn náðu hins vegar vopnum sínum að nýju og náðu fjögurra stiga forskoti, 67-71, þegar tæpar tvær mínútur voru eftir af leiknum. Stjörnumenn skoruðu hins vegar fjögur stig í röð, og komu leiknum í framlengingu, lokatölur 71-71.

Í framlengingunni voru Valsmenn alltaf skrefinu á undan, og þó að Stjörnumenn hafi hangið í gestunum framan af, náðu Valsmenn varnarstoppum á mikilvægum augnablikum. Að lokum vann Valur fjögurra stiga sigur, 76-80.

Adama Darbo var stigahæstur heimamanna með 13 stig, en Hlynur Bæringsson skoraði 12 stig og tók 15 fráköst. Hjá Val var Kári Jónsson bestur með 23 stig.

Næsti leikur Vals er 20. janúar næstkomandi gegn Grindavík í Origo höllinni. Sama kvöld mætir Stjarnan í Reykjanesbæ þar sem þeir mæta Keflavík.

Fréttir
- Auglýsing -