spot_img
HomeFréttirÍslandsmeistararnir lögðu Grindavík í HS Orku Höllinni

Íslandsmeistararnir lögðu Grindavík í HS Orku Höllinni

Þór frá Þorlákshöfn vann öruggan útisigur á Grindavík í lokaumferð Subway-deildarinnar í kvöld. Lokatölur urðu 93-105 gestunum í vil, í leik sem var ágætis skemmtun og slatti af flottum tilþrifum litu dagsins ljós.

Ljóst var fyrir leikinn að róður heimamanna yrði þungur því tveir af sterkustu leikmönnum liðsins, EC Matthews og Ivan Alcolado voru fjarri góðu gamni vegna meiðsla. Blaðamaður körfunnar spurðist fyrir um meiðsli félaganna og sagði aðstoðarþjálfari Grindvíkinga, Jóhann Ólafsson, í stuttu spjalli við blaðamann að þeir væru að vonast til að báðir yrðu kapparnir leikfærir eftir um viku þegar úrslitakeppnin hefst – og í raun er það lífsnauðsynlegt að þeir EC og Ivan mæti sterkir til leiks enda tveir af betri leikmönnum deildarinnar.

En aftur að leiknum: Það var bara í raun í 1. leikhluta sem eitthvað alvöru jafnræði var á með liðunum; en í 2. leikhluta slitu Þórsarar sig frá Grindvíkingum og litu í raun aldrei til baka. Þeir hittu ótrúlega úr 3ja stiga skotum; þeim hreinlega rigndi niður þristunum og það var sama hver skaut – allt meira og minna ofan í. Svo eru Þórsarar hávaxnir og sterkir og sjálfstraust þeirra er gott. Það verður ekkert áhlaupsverk að hirða af þeim þann stóra sem þeir unnu svo eftirminnilega í fyrra í fyrsta sinn.

Grindavík er með gott lið, eins og öllum er ljóst; eftir þjálfaraskiptin hefur liðið sýnt klárlega framfarir og með alla leikmenn heila eru Grindvíkingar í raun til alls líklegir þótt uppskeran í deildakeppninni hafi verið rýr, sjöunda sætið. Það yrði afar sorglegt ef Grindavík myndi verða án Ivans og EC í úrslitakeppninni því liðið hefur verið að gera vel og stígandinn góður eftir að Sverrir Þór tók við liðinu, enda þar á ferð vanur maður og sigursæll sem bæði leikmaður og þjálfari.

Þessi tvö lið mætast í einvígi í 8-liða úrslitum sem byrja í næstu viku. Þórsarar áttu í kvöld möguleika á deildarmeistaratitlinum með sigri, en þurftu að treysta á tap Njarðvíkur gegn Keflavík, en það gerðist ekki.

Hjá Þór var það liðsheildin sem öllu skipti; liðið dreifði stigaskorinu vel og þá hitti liðið úr 22 af 34 þristum sem gera tæp 65% hittni úr 3ja stiga skotum, sem er hrein frábær árangur.

Hjá heimamönnum var Ólafur Ólafsson frábær og Kristinn Pálsson sýndi úr hverju hann er gerður; skorar, frákastar og spilar góða vörn – og Kiddi er greinilega að verða sterkari og sterkari, bæði andlega og líkamlega, og ef hann spilar vel í úrslitakeppninni yrði það gríðarstór bónus fyrir liðið. Björgvin Hafþór Ríkharðsson barðist að venju eins og ljón og átti flott tilþrif í vörn og sókn.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Ingibergur Þór)

Viðtöl:

Lárus Jónsson þjálfari Þórs

Það var ekkert að marka þennan leik, hann gefur engan veginn rétta mynd af getu liðanna – þá vantaði bæði Ivan og EC, og það munar svakalega um tvo svona frábæra leikmenn,” sagði þjálfari Íslandsmeistara Þórs frá Þorlákshöfn, Lárus Jónsson, og hélt áfram:

“Við munum mæta Grindavík í úrslitakeppninni og þeir leikir verða miklu erfiðari en þessi. Það er ekki möguleiki á að við vanmetum Grindavík eitthvað – það yrði galið. Það er lítill getumunur á flestum liðunum í deildinni, en við og Njarðvík erum kannski búnir að sýna mesta stöðugleikann í vetur,” sagði Lárus sem er ánægður með árangur liðsins í vetur:

Við vorum ekki langt frá okkar fyrsta deildarmeistaratitli, fórum í bikarúrslit og nú er það úrslitakeppnin, og ég get ekki verið annað en ánægður með strákana. Þetta er búið að vera gott tímabil hjá okkur. En við viljum gera enn betur og trúum á að við getum farið alla leið í vor og endurtekið leikinn frá því í fyrra og tekið þann stóra.”

Sverrir Þór Sverrisson þjálfari Grindavíkur

Við vissum að þessi leikur yrði afar erfiður, enda vantar bæði Ivan og EC í lið okkar, og vonandi verða þeir til í slaginn og gott betur í úrslitakeppninni,” sagði Sverrir Þór Sverrisson þjálfari Grindvíkinga eftir leik.

Bætti við:

“Það var margt ágætt í leik okkar en ég hefði viljað sjá meiri ákveðni, ákefð og baráttu. Þeir hins vegar eru með frábært lið og hittu svakalega úr 3ja stiga skotunum – hvort sem þeir voru galopnir eða með mann í andlitinu, og það er erfitt að eiga við slíkt.”

Sverrir Þór tók við liði Grindvíkinga fyrir rétt rúmum mánuði og segir hann að þótt vissulega hefði hann viljað fá lengri tíma til að móta liðið þá þýði lítið að tala um það:

“Við þurfum ákveðni í öllum okkar aðgerðum og stöðugleika – gera það sem lagt er upp með og ef það er ekki að ganga að finna aðrar lausnir með því að vera sköpunarglaðir. Vörnin þarf að vera sterk ef við ætlum okkur að gera eitthvað af viti í úrslitakeppninni og við þurfum að trúa á hvorn annan og vinna saman sem einn; þá getum við slegið hressilega frá okkur. Næst eru það Þórsarar aftur, í úrslitakeppninni, og við þurfum að vera með okkar sterkasta lið og þá þurfa líka allir að leggjast á árarnar, og við ætlum okkur að gefa allt sem við eigum í úrslitakeppninni,” sagði Sverrir Þór í samtali við Körfuna eftir leik.

Fréttir
- Auglýsing -