Tindastóll tók á móti Íslandsmeisturum Hauka í Bónus deild kvenna í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld. Stólarnir unnu góðan sigur á Ármanni í síðasta leik og Haukar rústuðu Njarðvík.
Ljóst var frá upphafi að hér yrði um erfiðan leik að ræða fyrir heimastúlkur, ekki síst þar sem þeirra styrkasta stoð, Maddie Sutton, var ekki með vegna meiðsla. Leikurinn fór einmitt þannig af stað að Stólar áttu erfitt með að finna leið að körfunni á meðan Haukar settu þrista og staðan var orðin 7-17 þegar Israel Martin tók leikhlé þegar rúmar 4 mínútur voru liðnar. Marta hafði þá skorað öll 7 stig heimaliðsins. Það var allt annað Tindastólslið sem kom út úr leikhléinu og þær byrjuðu að naga niður forskot Hauka með áköfum varnarleik auk þess sem fleiri tóku skotin í sókninni. Stólar settu 12 stig í röð og komust yfir með þrist frá Oceane 19-17. Leikurinn hélst svo jafn út leikhlutann og Amendine Toi jafnaði í 27-27 í lokin. Mikið skorað. Stólastúlkur byrjuðu annan leikhluta með þrist frá Ingu Sólveigu og 2 vítum frá Mörtu og komust 5 stigum yfir. Þær héldu áfram að spila vel og 2 þristar í röð frá Oceane komu Stólum í 41-34 og Emil tók leikhlé. Næstu mínútu eftir leikhlé Emils keyrðu Haukar upp pressuna og skoruðu 6 stig í röð og nú var komið að Israel að taka leikhlé. Leikurinn jafnaðist og næstu mínúturnar var ekki mikið skorað en Haukar áttu síðustu 5 stig hálfleiksins og leiddu í hálfleik 46-52.
Gestirnir byrjuðu á því að skora fyrstu 6 stig seinni hálfleiks og komust 12 stigum yfir. Margir héldu að þar með væri leiknum lokið en Stólastúlkur sýndu mikla baráttu og kröfsuðu sig aftur inn í leikinn. Tveir þristar frá Mörtu komu stöðunni í 57-61 og Emil tekur leikhlé. Ekkert skorað í næstum 2 mínútur en svo setur Amendine tvo þrista í röð og &1 að auki og kemur gestunum í 59-70. Víti frá Mörtu naga niður muninn en Sólrún á lokaorðið í fjórðungnum með þrist og 10 stiga munur fyrir lokaátökin. Stólar náðu nokkrum mini-áhlaupum en Haukar áttu alltaf svar og þristur frá Sigrúnu kom þeim í 16 stiga forystu þegar einungis 3:34 lifðu leiks. Stólastúlkur neituðu hinsvegar að gefast upp og unnu þessar síðustu þrjár mínútur 15-3 en því miður var það ekki nóg og Krystal tryggði Haukum sigurinn með víti.
Stórskemmtilegur leikur og hjá Tindastól var Marta hreint ótrúleg og endaði með 42 stig, 10 stoðsendingar og 8 fráköst (49 í framlag). Inga Sólveig átti sinn besta leik í vetur, steig upp í fjarveru Maddie og endaði með 16 stig og 11 fráköst. Oceane bætti við 20 stigum en gestirnir unnu frákastabaráttuna þó ekki munaði miklu. Amendine endaði stigahæst Hauka með 22 stig og Krystal skilaði 20 stigum og 33 framlagsstigum.
Myndasafn (væntanlegt)



