spot_img
HomeFréttirÍslandsmeistararnir í 2. sætið eftir sigur á Stólunum

Íslandsmeistararnir í 2. sætið eftir sigur á Stólunum

09:23
{mosimage}

(Joshua Helm brýtur sér leið upp að körfu Stólanna) 

KR-ingar unnu Tindastól frá Sauðárkróki í Iceland Express deildinni í gærkvöld 97-91 í DHL-Höllinni. Sigurinn var ekki fallegur en mikilvægur var hann í þessari jöfnu og spennandi deild. Avi Fogel var stigahæstur hjá KR með 22 stig, Jovan Zdravevski bætti við 21 stigi.  

Leikurinn var liður í 10 umferð deildarinnar, en að henni lokinni tekur við jólafrí til 29. desember. Það var nokkur værukærð yfir leik KR-liðsins, sóknarleikurinn var stirður á köflum og mikið um mistök á báða bóga. Bæði lið virtust nett áhugalaus og það smitaði út frá sér á áhorfendapallana, ef frá er talin stuðningsmannahópurinn Miðjan sem sá um að halda skemmtanagildi leiksins yfir lágmarki.  

Leikurinn var í járnum í fyrri hálfleik. KR-ingar náðu aldrei að hrista Stólana af sér. Staðan eftir fyrsta leikhluta 23-17 og 46-43 í hálfleik. Bæði lið reyndu svæðisvörn og að keyra upp hraðann en með misjöfnum árangri. Byrjun seinni hálfleiks lofaði góðu, KR-ingar náðu 15 stiga forskoti í þriðja leikhluta og leiddu 77-66 fyrir fjórða leikhlutann. Tindastólsmenn voru ekki af baki dottnir og minnkuðu muninn niður í þrjú stig í fjórða leikhluta áður en KR-ingar náðu að landa sigrinum á vítalínunni. Lokatölur 97-91 fyrir KR.  

Jovan átti einn af sínum betri leikjum í KR-búningnum. Avi var með fínar tölur, 22 stig og 11 fráköst en samt var nokkur deyfð yfir honum. Josh barðist vel að vanda og skoraði 19 stig og tók 13 fráköst. Bryjnar, Helgi og Pálmi áttu ágætisl leiki. Aðrir spiluðu minni. Það er áhyggjuefni að fyrirliðinn Fannar Ólafsson er eitthvað laskaður og virðast meiðslin há honum eitthvað. Það er vonandi að hvíldin sé honum kærkomin og að hann komi frískari á líkama til leiks í seinni helming Íslandsmótsins.  

Þeir Donald Brown og Serge Poppe gerðu báðir 22 stig í liði Stólanna í gær.

Þessi leikur verður ekki lengi í minnum hafður fyrir þá 200 áhorfendur sem lögðu leið sína í DHL-höllina í kvöld. Eftir stendur að sigurinn er mikilvægur gegn liði sem getur gert hvaða liði í deildinni skráveifu á góðum degi.  

Tölfræði leiksins 

Texti: www.kr.is/karfa

Mynd: Stefán Helgi Valsson

Fréttir
- Auglýsing -