Njarðvík tóku á móti Stjörnunni í kvöld í Bónusdeild karla. Fyrir leik bæði lið svo sem verið á litlu flugi í deildinni og því gríðarlega fróðlegur leikur fyrirfram. Svo fór að Stjörnumenn sem höfðu undirtökin mest allan leikinn höfðu 105:101 sigur og þeirra annar sigur á leiktíðinni eftir 6 umferðir.
Sem fyrr segir voru það gestirnir úr Garðabæ sem voru þetta 4 til 12 stig yfir mest allan leikinn og heimamenn á hælunum varnarlega, sem þeir hafa reyndar verið allan veturinn. 103 stig frá andstæðingum að meðaltali segir þá sögu til enda. En hinsvegar er liðið skeinuhætt hinumegin á vellinum og þar liggur styrkleiki liðsins. Stjarnan voru í fyrri hálfleik á leiðinni að stinga af þegar þeir komust einhverjum 15 stigum yfir. Þar kom skemmtilega á óvart ungur leikmaður þeirra Atli Hrafn Hjartarson sem setti niður þrjá þrista í röð fyrir liðið. Það voru einmitt 15 stig sem skildu liðin á hálfleik. Njarðvíkingar hinsvegar grimmir í þriðja leikhluta og minnkuðu muninn þar. Á loka kafla leiksins voru Njarðvíkingar búnir að jafna leikinn og allt stefndi í hörku endasprett en skynsemi Íslandsmeistaranna og slæmar ákvarðanatökur heimamanna urðu þess valdandi að gestirnir hirtu sigurinn og var létt í leiks lok.
Það var fyrirliðinn Ægir Þór Steinarsson sem leiddi Stjörnuliðið til sigurs. Yfirvegun kappans á ögurstundu og kunnátta hans í að taka af skarið á réttum augnablikum er aðdáunarvert. Þess á milli spilar hann hörku varnarleik og drífur lið sitt áfram. Maður leiksins án nokkurs vafa! Orri Gunnarsson átti svo einnig fínan leik. Eftir að hafa byrjað funheitur týndist hann aðeins þarna um miðbik leiksins en endaði á góðum nótum. Traustur leikmaður og einn af okkar bestu í deildinni í dag.
Hjá Njarðvík var Dwayne Lautier þeirra atkvæðamestur með 29 stig og fór gríðarlega mikið púður í þessi stig hjá honum. Kappinn duglegur að sækja á hringinn og klára sín færi en erfitt er það oft og á tímum helst til fyrirsjáanlegt. Brandon Averett kom honum næstur með 20 stig og sama má segja um þann pilt eins og Orra hjá Stjörnunni, hann mætti vera töluvert grimmari að finna sín færi og taka fleiri skot.
Njarðvíkingar þurftu að leika megnið af leiknum án Mario Matasovic sem kom sér snemma í villu vandræði. Það varð til þess að Julio De Asis spilaði fleiri mínútur og til að vera ekkert að skafa af því þá er sá kappinn einfaldlega langt frá því að vera nægilega sterkur til að taka eitt af þeim plássum í liðinu sem hann fyllir í með veru sinni. Ekki beint stoðsending sem kom úr Garðabænum þar. Hjá Stjörnunni var Giannis Agravanis nokkuð langt frá sínu besta og komst aldrei í takt við leikinn. Stjörnumenn léku einnig án Pablo Bertone í kvöld.



