spot_img
HomeBikarkeppniÍslandsmeistarar Vals slökktu í bikarvonum Hattar - Mæta Stjörnunni í úrslitaleik komandi...

Íslandsmeistarar Vals slökktu í bikarvonum Hattar – Mæta Stjörnunni í úrslitaleik komandi laugardag

Valur lagði Hött í kvöld í seinni undanúrslitaleik VÍS bikarkeppni karla, 47-74. Valur mun því mæta ríkjandi bikarmeisturum Stjörnunnar í úrslitaleik komandi laugardag, en Stjarnan hafði fyrr í kvöld tryggt sér sæti í úrslitaleiknum með sigri á Keflavík.

Fyrir leik

Gengi liðanna tveggja það sem af er vetri í Subway deildinni verið nokkuð ólíkt. Íslandsmeistarar Vals sem stendur í efsta sætinu með 20 stig á meðan að nýliðar Hattar hafa unnið helmingi færri leiki, með 10 stig í 9. sætinu.

Gangur leiks

Óhætt er að segja að Íslandsmeistarar Vals hafi haft tögl og haldir á upphafsmínútum leiksins, þar sem forysta þeirra er komin í 13 stig eftir aðeins fjögurra mínútna leik, 1-14. Austanmenn gera þá nokkuð vel að ná vopnum sínum aftur og eru aðeins fimm stigum fyrir aftan þegar fyrsti fjórðungur er á enda, 15-20. Valur nær að gera vel að halda Hetti í þægilegri fjarlægð í öðrum leikhlutanum með gífurlega sterkum varnarleik og fara með 11 stiga forystu til búningsherbergja í hálfleik, 24-35.

Stigahæstur fyrir Val í fyrri hálfleiknum var Kári Jónsson með 10 stig, en eftir frábæra byrjun sóknarlega hafði lítið gerst hjá honum í öðrum leikhlutanum. Fyrir Hött var David Guardia stigahæstur í fyrri hálfleiknum með 9 stig.

Nokkuð var farið að bera á villuvandræðum hjá báðum liðum í hálfleik þar sem að stórir póstar hjá þeim báðum voru komnir með þrjár villur, annars vegar Nemanja Knezevic hjá Hetti og Kári Jónsson hjá Val.

Valsmenn halda áfram að gera vel varnarlega í upphafi seinni hálfleiksins. Halda Hetti í aðeins 10 stigum í þriðja leikhlutanum, fá á sóknarhelmingi vallarins nokkra þrista til að detta og eru með þægilega 14 stiga forystu fyrir lokaleikhlutann, 34-48. Þrátt fyrir ágætis tilraunir hleypa Valsmenn Hetti aldrei inn í leikinn í fjórða leikhlutanum. Með, áfram, frábærri frammistöðu varnarlega ná þeir að lokum að sigla nokkuð öruggum sigur í höfn, 47-74.

Kjarninn

Varnarlega var Valsliðið erfitt við að eiga á löngum köflum í leik kvöldsins. Hattarmenn gáfust þó aldrei upp og hefðu með smá heppni mögulega náð að gera þetta að leik í lokin. Allt kom þó fyrir ekki, sigur Vals að lokum nokkuð öruggur og er liðið nú komið með gullið tækifæri til þess að vinna fyrsta bikarmeistaratitil sinn síðan árið 1983, sem og vera, þó ekki nema væri í nokkra mánuði, handhafar tveggja stærstu titla boltans.

Atkvæðamestir

Fyrir Val var Kári Jónsson atkvæðamestur í kvöld með 20 stig, 6 stoðsendingar og 3 stolna bolta. Fyrir Hött var það David Guardia Ramos sem dró vagninn með 16 stigum.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Hafsteinn Snær)

Fréttir
- Auglýsing -