spot_img
HomeFréttirÍsland slapp með skrekkinn gegn þrautseigum Eistum

Ísland slapp með skrekkinn gegn þrautseigum Eistum

Körfubolta er oft lýst sem “íþrótt áhlaupa” og sigur Íslands gegn Eistlandi var fullkomið dæmi um það. Ísland skoraði 19 stig gegn 2 á flottum kafla, en Eistland átti frábæran fjórða leikhluta sem þeir unnu 19-31. Ísland vann þó að lokum 83-77.

Óskar Víkingur Davíðsson spilaði ekki með í þessum leik, né í leik gærdagsins gegn Dönum, sökum tognunar í baki. Að sögn sjúkraþjálfara hafði hann verið tæpur í bakinu fyrir mót og endurvakti meiðslin í fyrsta leik mótsins. Vonin er að hann verði með á morgun gegn Svíþjóð.

Gangur leiks

Góð vörn skilaði sínu í fyrsta leikhluta þar sem Ísland skoraði úr vel úthugsuðum hraðaupphlaupum. Skotnýting liðsins var mjög fín þótt skotvalið hefði mátt vera betra, en liðið hitti úr 50% sinna skota utan af velli, þó aðeins 1/9 þriggja stiga. Íslendingar tóku fljótt stjórnina á leiknum og staðan eftir fyrsta 22-13 fyrir Íslandi.

Íslendingarnir voru greinilega komnir á bragðið í upphafi annars leikhluta og skoruðu 13 stig í röð. Tvö vítaskot frá Eistum bundu síðan enda á 19-2 áhlaup Íslendinga sem hafðist seint í fyrsta fjórðung. Eistarnir skoruðu sína fyrstu körfu þegar sex mínútur voru liðnar. Eistunum tókst loks að minnka muninn í 15 stig, en Íslendingar áttu lokaorðið og staðan í hálfleik 45-28 fyrir Íslandi.

Liðin skiptust á körfum fyrstu mínútur þriðja leikhluta og virtist sem að Eistarnir væru farnir að átta sig aðeins betur á Íslendingunum. Við miðbik leikhlutans komust þeir í 14-12 eftir stóran þrist og tók þá Israel Martin leikhlé. Stór hraðaupphlaupssniðskot frá Tómasi og Hilmi skiluðu sigrinum í leikhlutanum og staðan eftir hann 64-46.

Eistarnir byrjuðu fyrstu 3 mínútur leikhlutans vel og minnkuðu muninn í 7 stig (68-61) eftir 13 stiga áhlaup gegn aðeins 4 frá Íslandi. Munurinn flakkaði úr 7 í 5 nokkrum sinnum þar sem Ísland virtist aðeins vera að missa hausinn. Eistinn Kaspar Kuusmaa minnkaði muninn í 2 stig með löngu þriggja stiga skoti, en Daníel Ágúst setti tvö sniðskot til að koma Íslandi 6 stigum yfir. Annar stór þristur frá Eistum minnkaði muninn í 3 stig með tvær mínútur eftir, en tröllið Almar reif niður sitt eigið sóknarfrákast í næstu sókn og kom muninum í 5 stig. Annar þristur frá Eistum en Daníel hittir úr báðum vítum í næstu sókn og staðan 81-77 með 24 sekúndur eftir af æsispennandi leik. Hilmir setti tvö víti í viðbót og lokasóknin Eistanna með 14 sekúndur eftir. Karl Markus Poom endar með boltann til að taka síðasta skot leiksins, en hann hafði sett tvo stóra þrista í síðustu sóknum liðsins. Tómas Valur hamrar boltanum aftur til Poom og setur sætan svip á enda leiksins. Ísland sigrar Eistland 83-77.

Lokasekúndur leiksins má sjá í myndbandi hér fyrir neðan.

Atkvæðamestir

Almar Orri Atlason átti flottan leik með 17 stig og 7 fráköst. Einnig spilaði Hilmir Arnarson vel og lauk leik með 18 stig og 7 fráköst.

Áberandi tölfræði

Lið Eistlands var með 96% vítaskotnýtingu, en þeir hittu úr öllum nema einu, 22/23.

Hvað er næst?

Liðið keppir gegn Svíþjóð í næstsíðasta leik mótsins á morgun kl 15:15 að Íslenskum tíma.

Tölfræði leiks

Myndir úr leik

Fréttir
- Auglýsing -