Einn leikur fer fram á Smáþjóðaleikunum í dag en þá mætast Ísland og Andorra í karlaflokki. Íslenska liðið steinlá gegn heimamönnum í Lúxemborg í gær eftir frækinn sigur á San Marínó síðastliðinn þriðjudag.
Viðureign Íslands og Andorra hefst kl. 18:30 að íslenskum tíma. Ísland og Andorra hafa ellefu sinnum mæst í landsleik, tíu af þessum leikjum hafa farið fram á Smáþjóðaleikum en einn á Promotion Cup í Dublin árið 1994. Íslendingar hafa unnið tíu síðustu viðureignir liðanna en við töpuðum þegar liðin mættust fyrst árið 1989 á Smáþjóðaleikunum á Kýpur. Stærsti sigurinn sem Íslendingar hafa unnið á Andorra kom árið 1997 þegar liðið vann 40 stiga sigur, 117-77 á Smáþjóðaleikunum á Íslandi 1997 en þá var leikið í Kópavogi.
Mynd/ KKÍ – Jóhann Árni Ólafsson hefur löngum verið þekktur fyrir litríkar gabbhreyfingar og hér jafnvel á meðan hann tekur innkast fíflar hann varnarmann Lúxara upp í loftið en það ku víst vera algengari verknaður í námunda við körfuna.



