U18 ára landslið Íslands mátti í dag fella sig við 87-85 ósigur gegn Georgíu í milliriðli B-deildar Evrópukeppninnar. Kristinn Pálsson fór mikinn í liði Íslands með 32 stig en sigurstig Georgíumanna komu af vítalínunni sex sekúndum fyrir leikslok.
Þegar sex sekúndur lifðu leik héldu Georgíumenn á línuna og komu leiknum í 87-85 en Þórir Guðmundur Þorbjarnarson fékk tækifæri til þess að jafna metin í teig Georgíumanna en skotið vildi ekki niður og tveggja stiga tap því staðreynd. Þórir Guðmundur var með 23 stig í leiknum en hann og Kristinn gerðu 55 af 85 stigum Íslands í dag.
Á morgun mætast Ísland og Svíþjóð kl. 20:15 að staðartíma en Svíar töpuðu með þremur stigum gegn Ísraelsmönnum í dag. Kári Jónsson sem fékk högg á hné í síðasta leik kom ekki við sögu í leiknum í dag.
Tölfræði leiksins: Ísland 85-87 Georgía
Mynd úr safni/ Kristinn Pálsson fór fyrir íslenska liðinu í dag með 32 stig og 9 fráköst.



