spot_img
HomeFréttirÍsland í toppsætið með öruggum sigri

Ísland í toppsætið með öruggum sigri

Seinni landsleikur Íslenska landsliðsins í þessum landsleikjaglugga fór fram í dag þegar liðið mætti Kósovó í búbblinnu í Slóvakíu.

Leikurinn var í járnum í fyrsta leikhluta, Íslenska liðinu tókst ekki að slíta sig frá Kósovó fyrr en í byrjun annars leikhluta. Þá valtaði liðið hreinlega yfir Kósovó, sótti sér tæplega 20 stiga forystu sem varð aldrei minni út leikinn.

Ísland fór með vænlega forystu inní hálfleikinn, 45-29. Eftir það varð leikurinn algjörlega eign Ísland og sjálfstraust okkar manna jókst með hverri mínútunni.

Íslenska liðið komst fyrr í takt í leik dagsins og var ljóst frá fyrstu mínútu að liðið var margfalt hæfileikaríkara en lið Kósovó. Að lokum fór svo að Ísland vann ansi öruggan sigur 86-62.

Með því stökk liðið í efsta sæti riðilsins, bili að minsta kosti. Liðið hefur einungis tapað einum leik í undankeppnini og var það útileikur gegn Kósóvó. Eftir leik dagsins er ljóst að sá leikur hefur verið slys og vantaði marga leikmenn hjá Íslandi. Tveir leikir eru eftir af riðlakeppninni, gegn Slóvakíu og Lúxemborg. Tvö efstu lið riðilsins komast í næsta fasa undankeppninnar.

Hörður Axel Vilhjálmsson var gríðarlega öflugur í dag og ljóst að hann hefur ekki setið auðum höndum í samkomubanninu. Hann stýrði leik Íslands frábærlega auk þess að svínhitta. Hörður var með 22 stig, þar af sex þriggja stiga körfur í átta tilraunum. Við það bætti hann 8 fráköstum og 4 stoðsendingum. Tryggvi Snær var að vanda sterkur og endaði með 12 stig, 9 fráköst og þrjá varða bolta. Ægir Þór lauk einnig þessum glugga eins og hann byrjaði hann með frábærri frammistöðu.

Tveir sigrar í þessum glugga er akkurat á pari hjá Íslandi. Sigrarnir voru lífsnauðsynlegir og eftir á að hyggja í raun skildusigrar. Margir góðir hlutir eru að gerast hjá liðinu og verður gaman að sjá liðið þegar þeir Haukur Helgi og Martin geta verið með og liðið er fullskipað.

Einkunnargjöf og viðtöl eru væntanleg.

Tölfræði leiksins

Myndasafn

Fréttir
- Auglýsing -