Ísland lauk leikí dag í B-deild evrópumóts U18 landsliða sem hefur farið fram í Tallin síðustu daga. Mótinu lauk með tapi gegn Belgíu í leik um níunda sæti mótsins.
Ísland lék vel í fyrri hálfleik og sérstaklega í öðrum leikhluta þar sem liðið náði gríðarlega góðu áhlaupi og leiddi þegar liðin héldu til hálfleiks 40-39. Liðinu tókst ekki að halda dampi í seinni hálfleik en Belgía fékk of mörg sóknarfráköst eða annan séns í sókninni. Íslenska liðið gekk illa varnarlega og Belgía gekk á lagið. Lokastaða 87-78 fyrir Belgíu í lokaleik liðanna á þessu móti.
Fyrirliðinn Gabríel Sindri Möller var langbesti maður Íslands í dag. Hann var með 22 stig, 5 stoðsendingar, 4 fráköst og 75% skotnýtingu. Arnór Sveinsson kom á eftir honum með 12 stig og 5 fráköst.
Tapið þýðir að Ísland endar í tíunda sæti B-deildar þetta árið en liðið átti heillt yfir fínt mót. Liðið setti saman nokkrar mjög öflugar frammistöður og var hársbreidd frá því að komast í átta liða úrslit. U18 landsliðið endaði í 13. sæti fyrir ári síðan og því ljóst að framfarir eru í hópnum en eldra árið í þessu liði fer uppí U20 liðið að ári sem leikur í A-deild. Það er því heldur betur stórt tækifæri framundan fyrir hluta hópsins.