spot_img
HomeLandsliðinEuroBasket 2025Ísland grátlega nálægt því að leggja firnasterkt lið Tyrklands í Ólafssal

Ísland grátlega nálægt því að leggja firnasterkt lið Tyrklands í Ólafssal

Tyrkland lagði Ísland í Ólafssal í kvöld í öðrum leik undankeppni EuroBasket 2025, 65-72. Ísland tapaði því fyrstu tveimur leikjum keppninnar og situr í 4. sæti riðilsins á meðan að Tyrkland er í efsta sætinu án taps.

Fyrir leiks

Bæði lið léku sína fyrstu leiki í undankeppninni síðasta fimmtudag. Þá beið Ísland ósigur í Constanta Rúmeníu, 82-70 á meðan að Tyrkland lagði Slóvakíu örugglega 75-40 heima í Izmit.

Nokkuð ljóst fyrir leik kvöldsins að hann yrði erfiður fyrir Ísland. Tyrkland var það lið sem var dregið úr fyrsta potti í riðil Íslands, en þær eru reglulegir gestir á lokamótum stórmóta, hafa í heil 10 skipti tekið þátt í lokamóti EuroBasket og eru í 5. sæti Evrópustyrktarlista FIBA á meðan að Ísland situr þar í 29. sætinu.

Byrjunarlið

Isabella Ósk Sigurðardóttir, Thelma Dís Ágústsdóttir, Þóra Kristín Jónsdóttir, Birna Valgerður Benónýsdóttir og Tinna Guðrún Alexandersdóttir.

Gangur leiks

Með tveimur þristum frá Tinnu Guðrúnu kemst Ísland 6-0 yfir á fyrstu mínútum leiksins. Forysta Íslands helst þó ekki lengi, þar sem gestirnir vinna hana niður og eru sjálfar komnar yfir um miðbygg fyrsta fjórðungs, 8-11. Ísland gerir þó nokkuð vel út leikhlutann að halda í við Tyrkland, en að honum loknum er munurinn aðeins 3 stig, 17-20. Tyrkneska liðið nær meira og minna að loka á heimakonur í öðrum leikhlutanum. Hægja aðeins á leiknum og ná að byggja sér upp smá forystu áður en liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 26-39.

Stigahæstar fyrir Ísland í fyrri hálfleiknum voru Tinna Guðrún Alexandersdóttir með 8 stig og Helena Sverrisdóttir með 6 stig. Hjá tyrkneska liðinu var kaninn þeirra Kuanitra Holingsvorth stigahæst með 12 stig.

Heimakonur ná áfram að hanga í þeim tyrknesku í upphafi seinni hálfleiksins og eftir glæsilegan flautuflotbolta frá Jönu Falsdóttur eru þær aðeins 7 stigum undir fyrir lokaleikhlutann, 50-57. Áfram heldur Ísland leiknum spennandi inn í fjórða leikhlutann, þar sem aðeins munar 4 stigum á liðunum þegar 6 mínútur eru til leiksloka, 55-59. Á lokamínútunum nær Tyrkland þó aftur að vera þægilegu skrefi á undan og klára leikinn að lokum, 65-72.

Atkvæðamestar

Annan leikinn í röð var Thelma Dís Ágústsdóttir besti leikmaður liðsins, en hún skilaði 20 stigum, 8 af 11 skotnýtingu, 4 fráköstum og 3 stolnum boltum í kvöld. Þá bætti Tinna Guðrún Alexandersdóttir við 10 stigum, 5 fráköstum og Birna Valgerður Benónýsdóttir var með 11 stig og 4 fráköst.

Kjarninn

Þrátt fyrir tapið stóð íslenska liðið sig vel í dag. Halda þessu í raun og veru nokkuð jöfnu mun lengur heldur en búast mátti við. Hefðu alltaf tekið Rúmeníu síðasta fimmtudag með þessum leik. Alvöru stígandi í leik liðsins í þessum fyrstu leikjum sem veit á gott fyrir næstu glugga, en sá næsti er reyndar ekki fyrr en eftir tæpt ár. Líkt og eftir síðasta leik er hægt að minnast á innkomu nýliðans Ísoldar Sævarsdóttur inn í þetta lið. Sú var góð í kvöld og það verður virkilega spennandi að sjá hvort hún nær ekki að byggja ofaná þessa frábæru byrjun sína með landsliðinu í næstu leikjum. Þá gerði hinn nýliði liðsins Jana Falsdóttir einnig einkar vel með þær mínútur sem hún hafði úr að moða í leik kvöldsins.

Hvað svo?

Næsti gluggi keppninnar er ekki fyrr en í nóvember á næsta ári, en þá mun Ísland leika við Slóvakíu úti og Rúmeníu heima.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Gunnar Jónatansson)

Umfjöllun Körfunnar um íslensku landsliðin er kostuð af Lykil

Fréttir
- Auglýsing -