spot_img
HomeLandsliðinEuroBasket 2025Ísland ennþá langminnsta þjóðin til að taka þátt ,,Erum að gera mikið...

Ísland ennþá langminnsta þjóðin til að taka þátt ,,Erum að gera mikið kraftaverk bara með því að vera á lokamóti EuroBasket”

Aukasendingin settist niður með Hannesi Jónssyni framkvæmdarstjóra KKÍ og varaforseta FIBA.

Snert er á hinum ýmsu málefnum í upptökunni, EuroBasket 2025, væntingar til liðsins, muninn á mótunum 2015, 2017 og í dag, borgina Katowice og margt fleira.

Varðandi væntingar til liðsins á mótinu segir Hannes ,,Auðvitað erum við að leita að fyrsta sigrinum, við vonumst alltaf eftir sigri. Það er flott og það er gott að við séum öll undir pressu, sama í hvaða íþrótt við erum á Íslandi, en fyrsti sigurinn er samt alltaf að komast á lokamót sem þetta. Það er það sem allir aðrir, fyrir utan íslendinga, átta sig ekki á, hvað við erum að gera mikið kraftaverk bara með því að vera á lokamóti EuroBasket í körfubolta eða öðrum íþróttagreinum.”

Segir hann enn frekar að auðvitað langi þeim að vinna leiki, komast upp úr riðlinum og leika í 16 liða úrslitunum sem fram fara í Riga í Lettlandi, en að stærsti sigurinn sé að komast á mótið ,,Af þessum 50 þjóðum sem eru innan evrópska körfuknattleikssambandsins, að vera í hópi þessara 24 sem eru að komast alla leið á þetta lokamót og það er þessvegna sem við eigum að vera að njóta, við vitum ekki hvort við komumst aftur eftir fjögur ár, eða átta ár. Við eigum að njóta þess að vera á lokamóti, horfa á liðið okkar og styðja við liðið okkar alveg þangað til á síðustu sekúndu í síðasta leik”

Ísland er enn langsamlega minnsta þjóðin sem tekið hefur þátt í lokamóti EuroBasket. Næst á eftir Íslandi er Svartfjallaland með tæplega 700 þúsund íbúa, svo Eistland með tæpa eina og hálfa miljón íbúa og þar næst eru Makedónía, Slóvenía og Lettland öll með í kringum tvær miljónir. Varðandi þetta sagði Hannes ,,Það eru allir alltaf að pæla í hvað við erum að gera, hvernig komist þið þetta, hvað er í vatninu ykkar og allt þetta. Það vekur miklu meiri athygli utan Íslands, finnst mér oft, en á Íslandi, þessi árangur sem við erum að ná. Það er fullt af löndum, miklu stærri löndum, hvort sem það eru körfuboltalönd eða íþróttalönd sem ekki eiga fulltrúa á EuroBasket núna í haust. Það er þessvegna sem ég er að segja við eigum að njóta, hafa gaman og vera stolt af þessum árangri”

Hér fyrir neðan er hægt að hlusta á Aukasendinguna, en upptakan er einnig aðgengileg á öllum helstu veitum undir nafni Körfunnar

Fréttir
- Auglýsing -