spot_img
HomeFréttirÍsland einu stigi frá lokamótinu eftir frábæra frammistöðu í Tíblisi

Ísland einu stigi frá lokamótinu eftir frábæra frammistöðu í Tíblisi

Ísland lagði Georgíu 77-80 í kvöld í lokaleik liðanna í undankeppni HM 2023. Eftir leikinn voru liðin jöfn að stigum og í innbyrðisviðureign í keppninni, en vegna heildarstigatölu verður það Georgía sem fer á lokamótið en ekki Ísland.

Fyrir leik

Fyrir leik var vitað að annað hvort liðið myndi tryggja sér þriðja og síðasta farseðilinn á lokamót HM sem fram fer seinna á árinu. Þrjú lið fóru úr riðil Íslands, en áður höfðu Spánn og Ítalía tryggt sig áfram.

Ísland var einum sigurleik fyrir aftan Georgíu, sigur í kvöld var því ekki nóg, heldur þurftu þeir að vinna þá með meira en þremur stigum, þar sem að Georgía vann heimaleikinn þann 11. nóvember síðastliðinn, 85-88.

Í þeim leik var Tryggvi Snær Hlinason atkvæðamestur fyrir Ísland með 15 stig, 10 fráköst og Elvar Már Friðriksson skilaði 19 stigum og 6 stoðsendingum. Fyrir Georgíu var Tornike Shengelia erfiður í þeim leik, en hann var með 27 stig, 11 fráköst og 4 stoðsendingar.

Hvorug hafði þjóðin áður náð að tryggja sig inn á lokamótið, en færi svo að Ísland næði að gera það yrði þjóðin sú fámennasta sem hefði gert það í sögunni, en Svarfellingar eiga metið, aðeins um 620 þúsund.

Byjurnarliðið

Fyrir Ísland byrjuðu í dag Ægir Þór Steinarsson, Haukur Helgi Pálsson, Jón Axel Guðmundsson, Elvar Már Friðriksson og Tryggvi Snær Hlinason.

Gangur leiks

Íslenska liðið fer ágætlega af stað í leiknum og er leikurinn nokkuð jafn þangað til um miðbygg fyrsta fjórðungs. Þá ná heimamenn nokkrum stoppum og Giorgi Shermadini refsar íslenska liðinu á hinum enda vallarins. Með því ná þeir að byggja sér upp sex stiga forystu sem Íslend gerir vel að vinna niður þökk sé rosalegri innkomu aldursforseta liðsins Hlyns Bæringssonar, en þegar leikhlutinn er á enda er allt jafnt, 19-19.

Leikurinn er svo í járnum vel inn í annan leikhlutann, þar sem að Elvar Már heldur Íslandi á floti sóknarlega. Eins stigs munur þegar 5 mínútur eru til hálfleiks, 31-30. Óheppilegt var fyrir Ísland að í fjórðungnum blóðgaðist Tryggvi Snær Hlinason á enninu og þurfti tvisvar að yfirgefa leikinn til þess að hægt væri að gera að sári hans. Undir lok hálfleiksins nær Ísland í fyrsta skipti smá forystu, þegar þeir fara 4 stigum yfir með um 3 mínútur eftir, 34-38. Þeir ná þó lítið sem ekkert að slíta sig meira en það frá heimamönnum og leiðir Ísland með minnsta mun mögulegum þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 42-43.

Stigahæstur heimamanna í fyrri hálfleiknum var Giorgi Shermadini með 17 stig og þá var Tornike Shengelia kominn með 10 stig. Fyrir Ísland var Elvar Már Friðriksson stigahæstur í hálfleik með 16 stig, en Kári Jónsson honum næstur með 7 stig.

Hvorugt lið kom sér í nein rosaleg villuvandræði í fyrri hálfleiknum. Þó var Haukur Helgi kominn með 3 villur fyrir Ísland líkt og þeir Kakhaber Jintcharadze og George Tsintsadze hjá Georgíu.

Ísland nær að leiða leikinn í upphafi seinni hálfleiksins, en ekki með miklu, þegar rúmar fimm mínútur eru liðnar af þriðja fjórðung er liðið enn einu stigi á undan, 51-52. Leikurinn er svo stál í stál út leikhlutann þar sem að staðan fyrir lokaleikhlutann er 60-62 Íslandi í vil.

Áfram helst leikurinn jafn inn í fjórða leikhlutann. Ísland þó skrefinu á undan þangað til 7 mínútur eru eftir, en þá kemur Tornike Shengelia Georgíu stigi yfir af vítalínunni eftir að hafa fiskað fjórðu villuna á Hauk Helga, 66-65. Nánast í næstu sókn Georgíu á eftir sækir Shengelia svo fimmtu villuna á Hauk, sem að þarf að setjast á bekkinn ljúka leik.

Liðið gerir vel í framhaldinu og er fjórum stigum yfir þegar fimm mínútur eru eftir, 66-70. Þessari forystu nær Ísland að hanga á fram á brakmínútur leiksins. Munurinn þó aðeins 2 stig þegar 3 mínútur eru eftir, 71-73. Eru svo áfram yfir með 4 stigum þegar rúm mínúta er eftir, 71-75. Með tveimur vítum frá Tornike Shengelia og þrist frá Thaddus McFadden beint á eftir nær Georgía svo sinni fyrstu forystu í dágóðan tíma, með 45 sekúndur eftir, 76-75. Villa karfa góð frá Tryggva setja Ísland svo aftur yfir með 35 á klukkunni, 76-78. Georgía nær að setja eitt, klikka viljandi á seinna, 77-78 og brjóta strax. Jón Axel setur bæði vítin sín, 77-80 og þá er komið að Íslandi að brjóta með tæpar 11 sekúndur á klukkunni. Shengelia klikkar úr báðum vítunum og Ísland fær gott tækifæri til þess að vinna innbyrðisbaráttuna undir lokin, en ekki vill boltinn niður. Niðurstaðan að lokum svekkjandi þriggja stiga sigur Íslands, 77-80.

Atkvæðamestir

Elvar Már Friðriksson var frábær fyrir Ísland í leik kvöldsins, skilaði 25 stigum á 31 mínútu spilaðri. Honum næstur var Jón Axel Guðmundsson með 12 stig og 10 fráköst.

Kjarninn

Þó sigur Íslands hafi verið einu stigi of lítill til þess að senda liðið á lokamótið, má segja að hann hafi samt verið risastór. Að mæta á erfiðan útivöll fyrir framan 10 þúsund áhangendur sterka heimaliðsins og vera lengur yfir í leiknum heldur en þeir er ekkert minna en stórkostlegt. Sigrar liðsins í undankeppninni í heild líka frábærir. Bara síðasta árið að leggja þeir nokkrar af sterkustu þjóðum heims í Ítalíu, Úkraínu og Georgíu. Því er án nokkurs vafa hægt að láta sér hlakka til næstu verkefna liðsins.

Tölfræði leiks

Myndasafn





Umfjöllun Körfunnar um íslensku landsliðin er kostuð af Lykil

Fréttir
- Auglýsing -