Hér að neðan fer bein textalýsing úr viðureign Íslands og Bretlands í undankeppni EuroBasket 2015. Þetta er fyrsti leikur beggja liða í undankeppnin en þau mætast síðan aftur í Bretlandi þann 20. ágúst næstkomandi.
Fjórði leikhluti 83-70
– Leik lokið! Íslenskur sigur og lokatölur 83-70. Ísland fer með 13 stig í farteskinu í útileikinn gegn Bretum. Næst á dagskrá er útileikur gegn Bosníu þann 17. ágúst næstkomandi!
– 83-70 og 11 sek eftir af leiknum. Sigurinn er í höfn, þó ekki verra ef íslenska liðinu tækist að auka muninn í næstu sókn til að fara með sem flest stig í sarpinum í útileikinn gegn Bretum þann 20. ágúst næstkomandi.
– 83-66 Martin Hermannsson með skot sem ratar niður og 45 sekúndur til leiksloka. Það verður ekki annað sagt en að þessi fjórði leikhluti hjá íslenska liðinu hafi verið magnaður. Haukur Helgi og Martin með stórleiki, Hlynur Bæringsson sannaði enn eina ferðina að mannfólk getur gengið fyrir dísel-olíu, þvílík vinnsla á kappanum og Pavel…fálkasjónin að skila 14 stoðsendingum í dag.
– 81-63 Hörður Axel með laglega afgreiðslu, Haxel-style og eykur muninn í 18 stig…rosalegur fjórði leikhluti í gangi hjá íslenska liðinu!!!
– 79-63 Hlynur Bæringsson bætir við þrist!
– 76-63 og 3.35mín eftir af leiknum. Íslenska liðið hefur leikið glimrandi bolta það sem af er fjórða leikhluta.
– 72-60 Martin skorar eftir hraðaupphlaup, maðurinn er vafalítið að eiga sinn stærsta og besta A-landsleik.
– 67-60 Haukur Helgi klárar silkimjúkum höndum og mætir svo strax í næstu sókn með þrist, maðurinn er að fara á kostum í Höllinni! Ísland 70-60 Bretland og gestirnir taka leikhlé.
– 65-58 Pavel með elleftu stoðsendinguna er hann finnur Hörð Axel í teignum sem klárar ve. Ísland með sjö stiga forystu þegar 7mín eru til leiksloka.
– 61-58 Martin Hermannsson skorar fyrir Ísland og er kominn með 16 stig. 8.33mín eftir af leiknum og Bretar taka leikhlé.
– Fjórði leikhluti er hafinn! Lokaspretturinn framundan eftir æsilegan lokasprett í þriðja leikhluta.

Þriðji leikhluti: (59-58)
– Þriðja leikhluta er lokið, Ísland leiðir 59-58 eftir þrjá leikhluta.
– Logi Gunnarsson blandar sér í fjörið og kemur Íslandi í 58-56 með stökkskoti og Höllin tekur vel í þetta.
– 53-53 Haukur Helgi er tekinn við keflinu af Martin og jafnar með gegnumbroti en Bretar svara með þrist 53-56 og slíkt hið sama gerir Martin 56-56. Hér gerist allt á leifturhraða.
– 51-51 Haukur Helgi með stökkskot sem ratar rétta leið, nú gerast hlutirnir hratt og þjálfarar beggja liða jagast í sínum mönnum að þétta varnarraðirnar.
– 49-49 Haukur Helgi jafnar fyrir Ísland með tveimur vítum. 2.20mín eftir af þriðja.
– 47-49 Martin Hermannsson minnkar muninn með laglegum snúningi. Martin hefur verið beittastur í íslenska liðinu hér í þriðja leikhluta.
– 41-47 Bretar auka muninn í sex stig með körfu úr hraðaupphlaupi. 4.36mín eftir af þriðja.
– 41-43 Martin Hermannsson búinn að gera fimm stig í röð fyrir Ísland og minnkar muninn í tvö stig.
– 39-43 Martin með körfu og villu að auki, vítið lá niðri.
– 36-43 Clark með þriðja þristinn fyrir Breta í þriðja leikhluta og munurinn orðinn 7 stig. Íslenska vörnin þarf að finna svarið við Clark sem kominn er með 16 stig.
– 36-37 Hlynur skorar og fær villu en brennir af vítaskotinu. Bretar svara strax í næstu sókn með þrist 36-40.
– Hörður Axel Vilhjálmsson að fá sína þriðju villu í íslenska liðinu.
– Bretar opna síðari hálfleik með þrist og leiða nú 34-37 og eru komnir yfir í fyrsta sinn í leiknum.
– Þriðji leikhluti er hafinn!
Viðtal við Jón Arnór Stefánsson í hálfleik:

Annar leikhluti (34-34)
– 34-34 Bretar eiga lokaorðið í öðrum leikhluta, Clark setur þrist og þessi 208cm hái leikmaður Laboral Kutxa hefur verið Íslendingum illur viðureignar í öðrum leikhluta. Clark kominn með 13 stig í liði Breta. Haukur Helgi Pálsson er atkvæðamestur hjá Íslandi í hálfleik með 9 stig og 5 fráköst.
– 34-31 Hörður Axel finnur Hlyn Bæringsson í teignum sem skorar og fær villu að auki. 38 sek eftir af öðrum leikhluta og Bretar taka leikhlé.
– Hinn hávaxni Clark jafnar 31-31 fyrir Breta með troðslu. Fyrsta sinn sem er jafnt í leiknum frá uppkasti.
– 31-27 fyrir Ísland og 2.00mín eftir af öðrum leikhluta.
– 29-24 Bretar setja niður tvö vítaskot.
– Talandi um að þora! Martin Hermannsson með glæsileg tilþrif „up and under“ og villa, vítið dansaði niður og staðan 29-20, glæsilegt þrjú stig.
– 24-20 og 5mín í hálfleik, skotin vilja ekki niður hjá íslenska liðinu um þessar mundir en Hörður Axel Vilhjálmsson brýst í gegn og eykur muninn í sex stig, 26-20. Þetta var einmitt það sem vantaði að þora á bresku vörnina!
– 24-18 Bretar með fína rispu og búnir að þétta raðirnar í vörninni. 7.28mín eftir af öðrum leikhluta og íslenska liðið tekur leikhlé.
– Annar leikhluti hafinn, 24-12 Logi Gunnarsson fór laglega upp endalínuna, kláraði silkimjúkt með vinstri og jók muninn í 12 stig.

Fyrsti leikhluti: (22-10)
– Fyrsta leikhluta er lokið. Staðan 22-10 fyrir Ísland eftir virkilega flottan fyrsta leikhluta. Vörnin sterk og góð, menn að hjálpa vel og baráttan til fyrirmyndar í fráköstunum.
– 22-8 Martin Hermannsson skorar eftir flott innkastkerfi.
– 20-6 Pavel með þrist…íslenska vörnin er þétt og flott þennan fyrsta leikhluta, virkilega góð barátta og framúrskarandi að halda Bretum í aðeins sex stigum á 9 mínútum.
– 17-4 Pavel Ermolinskij gerir sín fyrstu stig í leiknum með stökkskoti.
– Fyrsta skipting hjá íslenska liðinu er Martin Hermannsson inn fyrir Loga Gunnarsson.
– 13-4 og Bretar taka leikhlé þegar 5.14mín eru eftir af fyrsta leikhluta. Flott byrjun hjá íslenska liðinu, menn á tánum og Haukur Helgi Bretum illviðráðanlegur.
– 13-2 augu Pavels eru betri en önnur, hér kom strax önnur stoðsending sem lauk með þrist frá Loga Gunnarssyni. Íslenska liðið er að keyra vel á Breta og okkar menn sem eru lægri í loftinu hlaupa þetta vel.
– 10-2 Haukur Helgi brýst í gegnum bresku vörnina eftir sendinu frá Pavel. Haukur er að mæta virkilega grimmur til leiks í dag.
– 5-0 Haukur Helgi setur niður þrist og er að finna sig vel á upphafsmínútunum. Clark minnkar í 5-2 en það virðist vera vera góður gangur í íslensku vörninni og menn að hjálpa vel til í teignum.
– 2-0 Haukur Helgi kemst inn í sendingu, brunar upp og gerir fyrstu stig leiksins. Þrælvel gert hjá Hauki og strak í næstu sókn er dæmd sóknarvilla á Boateng.
– Bretar fara ekki leynt með taktíkina sína, ráðast inn í teig eins og þeirra var von og vísa og leita eftir miðherjanum Boateng.
– Fyrsta skot gestanna geigar og Hlynur Bæringsson er með frákastið en stígur útaf í fyrstu íslensku sókninni og Bretar fá boltann aftur.
– Bretar vinna uppkastið, leikur er hafinn gott fólk. Áfram Ísland!
Fyrir leik:
– Byrjunarlið Íslands er: Pavel Ermolinskij, Hörður Axel Vilhjálmsson, Logi Gunnarsson, Haukur Helgi Pálsson og Hlynur Bæringsson. Hjá Bretum byrja þeir Bailey, Sullivan, Clark, Boateng og Johnson.
– Logi Gunnarsson er heiðraður hér fyrir leik fyrir sinn eitthundraðasta leik fyrir Íslands hönd.
– Búið að kalla liðin á bekkinn og verið að kynna hópana.
– Við ræddum einnig við David Patchell yngriflokka þjálfara hjá Val en hann er Breti og mætti í landsliðstreyju síns heimalands í Höllin í kvöld. Patchell kvað liðin áþekk:
– Við ræddum við Teit Örlygsson fyrir leik en kappinn sá hefur tja…umtalsverða landsliðsreynslu:
– Nú eru akkúrat 20 mínútur í leik. Eins og áður segir er Jón Arnór Stefánsson ekki með vegna tryggingamála og þá er Ólafur Ólafsson ekki í hópi kvöldsins. Íslenska hópinn skipa annars þeir: Axel Kárason, Haukur Helgi Pálsson, Elvar Már Friðriksson, Sigurður G. Þorsteinsson, Hlynur Bæringsson, Martin Hermannsson, Helgi Már Magnússon, Sigurður Á. Þorvaldsson, Ragnar Á. Nathanaelsson, Hörður Axel Vilhjálmsson, Logi Gunnarsson og Pavel Ermilinskij.



