spot_img
HomeFréttirÍsland-Bosnía: Ísland fer á EM!

Ísland-Bosnía: Ísland fer á EM!

Hér að neðan fer bein margmiðlunarlýsing frá viðureign Íslands og Bosníu í undankeppni Evrópukeppninnar 2015. Leikurinn hefst kl. 19:30 en uppselt er í Laugardalshöll. Leikurinn verður í beinni útsendingu hjá RÚV.  
 
* Þvílíkur og annar eins dagur fyrir íslenskan körfuknattleik! Þetta er magnað afrek hjá landsliðinu enda fagna þeir innilega hér á parketinu í Laugardalshöll þrátt fyrir sáran og nauman ósigur gegn Bosníumönnum.
 
* ÞAÐ ER LJÓST AÐ ÍSLAND MUN LEIKA Á EVRÓPUMEISTARAMÓTINU 2015 OG Í FYRSTA SINN Í ÍSLENSKRI KÖRFUKNATTLEIKSSÖGU SEM A-LANDSLIÐ KARLA KEMST Á STÓRMÓT – TIL HAMINGJU ÍSLAND!
 
Fjórði leikhluti: 

– Leik lokið – lokatölur 70-76 – Ísland fer á Evrópumeistaramótið!!!

– 70-74 Jón Arnór setur niður stökkskot og 20 sek eftir
 
– Nú eru 37 sekúndur eftir af leiknum, íslenska sveitin hefur staðið sig með miklum sóma, Bosníumenn eru í kjörstöðu til að klára verkefnið…tekst Íslandi það sem virðist vera hið ómögulega í augnablikinu….að stela sigrinum?
 
– 68-73 Bosníumenn settu eitt víti…45 sek eftir…
 
– 68-72 Martin setur bæði…
 
– 1.20mín eftir og Martin á tvö vítaskot…getur minnkað muninn í 4 stig…
 
– 2.40mín eftir…þessi lokasprettur verður eitthvað…
 
– 3.30mín eftir og staðan 64-72, gestirnir hafa hægt en bítandi náð undirtökunum en þá kom Hörður Axel með gegnumbrot og minnkaði í 66-72.
 
– 64-70 og Bosníumenn fá að komast upp með að skrefa ansi hressilega og bæta við körfu í þokkabót…
 
– 64-67 Bosníumenn taka 7-0 sprett og Craig Pedersen tekur leikhlé fyrir íslenska liðið þegar 5.49mín eru til leiksloka.
 
– 64-65 Bosníumenn setja niður þrist og eru komnir yfir þegar sex mínútur eru til leiksloka.
 
– 64-60 og 7.07mín eftir af leiknum og leikhlé í gangi. Troðfull Laugardalshöllin er í góðum gír, það vantar ekki – þvílíkur leikur!
 
– 64-60 Logi setur aðeins niður annað vítið en Ísland á boltann aftur.
 
– Dæmd villa á Gordic sem mótmælir og fær dæmda á sig tæknivillu að auki og hann kominn á bekkinn í liði Bosníumanna með fjórar villur. 
 
– 63-60 Brotið á Loga Gunnarssyni í þriggja stiga skoti og Logi setur niður tvö vítanna.
 
– 61-58 Pavel opnar með þrist!

Þriðji leikhluti: (58-58)
 
– Þriðja leikhluta lokið – staðan 58-58!

– 58-56…íslenska sóknin komin í smá öngstræti en þá afgreiddi Jón Arnór málið með stökkskoti, gestnirnir svöruðu að bragði og 58-58.
 
– 56-56 og leikhlé þegar 1.13mín eru til loka þriðja leikhluta. Síðustu rispur liðanna hafa verið nokkuð þreytublandnar, mistækar og nú síðast grýtti Jón Arnór boltanum útaf. 
 
– 56-56 Bosníumenn jafna þegar tvær mínútur eru eftir af þriðja leikhluta. Lagleg hreyfing í teignum og þeir dæla boltanum þar inn núna og gera íslensku vörninni afar erfitt fyrir.
 
– 56-53 Bosníumenn minnka muninn af vítalínunni og 2.50mín eftir af þriðja leikhluta.
 
– 56-51 Bosníumenn fá dæmt á sig tæknivillu og Martin setur niður annað vítið af tveimur. 4.00mín eftir af leiknum.
 
– 55-51 Hörður Axel með þrist. Þessi var vel þeginn, nokkuð klafs búið að vera á síðustu sóknum okkar manna og gestirnir virkilega þéttir í vörninni það sem af er þriðja leikhluta.
 
– Rúmar sex mínútur til loka þriðja leikhluta og Bosníumenn starx komnir í bónus…vissulega nokkrar villur þarna á ferðinni en það má lítið tjónka við gestunum og þá er flautað. Til allrar hamingju er vítanýting þeirra 9 af 20 í augnablikinu sem er afleitt.
 
– 52-46 Flott hraðaupphlaup hjá íslenska liðinu, Jón Arnór með gólfsendingu sem Haukur tekur með sér upp að körfunni og afgreiðir í tvö stig. 6.43mín eftir af þriðja leikhluta.
 
– Hér fær Pavel Ermolinski dæmda á sig óíþróttamannslega villu í stað þess að dæma þrjár augljósar sekúndur á Bosníumenn, þetta var ansi dýrt.
 
– 50-43 Pavel opnar með þrist! Svona á að opna eitt stykki seinni hálfleik.
 
– Þriðji leikhluti er hafinn.
 
 
Viðtal í hálfleik við Arnar Guðjónsson aðstoðarþjálfara Íslands:
 
 
*ATH: Eins og staðan er núna má Ísland tapa með allt að 30 stigum í kvöld en kemst þrátt fyrir það í lokakeppni Evrópumeistaramótsins. Vinni Ísland leikinn með 11 stiga mun þá vinnst riðillinn svo frá 30 stiga tapi upp í 11 stiga sigur er ýmislegt í boði en það eru seinni tíma pælingar eða eftir tvo leikhluta eða svo! 

Hálfleikstölur:
Ísland 47-43 Bosnía
Jón Arnór Stefánsson 17 stig (Ísland)
Elmedin Kikanovic 11 stig (Bosnía)
 
Skotnýting liðanna í hálfleik:
Ísland: Tveggja 42,9% – þriggja 46,7% og víti 100%
Bosnía: Tveggja 55,6% – þriggja 55,6% og víti 53,3%
 
(Logi Gunnarsson sækir að Bosníumönnum í öðrum leikhluta – ljósmynd/ Gunnar Freyr Steinsson)

Annar leikhluti (47-43)
 
– Hálfleikur: Ísland 47-43 Bosnía. Ísland vann annan leikhluta 31-19. Magnaður annar leikhluti hjá okkar mönnum sem náðu að þétta raðirnar í vörninni og fleiri en Jón tóku til sín í sókninni og þá fóru hlutirnir að malla.
 
– 47-43 Hörður Axel lemur sér leið af harðfylgi í gegnum bosnísku vörnina og skorar. 
 
– 45-41 Jón Arnór með gegnumbrot og kominn með 17 stig hér í fyrri hálfleik. Þvílík frammistaða hjá kappanum.
 
– Bæði lið eru komin með skotrétt eða fimm liðsvillur og hver villa núna fram að hálfleik sendir liðin á vítalínuna.
 
– 43-39 Axel Kárason skellir niður þrist fyrir íslenska liðið…Axel að koma sterkur inn í íslenska liðinu.
 
– 40-37 Hörður Axel með tvö víti – 3.00mín til hálfleiks.
 
– Axel Kára með sóknarfrákast og finnur Pavel sem smellir niður þrist og Ísland komið yfir 38-37 og Höllin lætur vel í sér heyra. 
 
– 35-36 Logi setur niður vítið.
 
– Logi Gunnarsson…hann tekur ekki nei fyrir svar! Í fyrstu var brotið á honum og hann skoraði en dómarar leiksins gáfu Íslendingum bara innkast, Logi lét ekki bjóða sér það og óð sem vitlaus væri aftur á körfuna, skoraði og fékk villu að auki! Staðan 34-36 og Bosníumenn taka leikhlé og Logi á víti að því loknu og getur minnkað muninn í eitt stig.
 
– 32-35 Haukur svarar þessum lélega dómi með þrist, svona á að svara fyrir sig! 
 
– Haukur Helgi allt annað en sáttur við þessa síðustu villu sína en hann varði skot frá Milosevic sem fær engu að síður tvö víti.
 
– 29-34 Logi Gunnarsson með þrist fyir Ísland og Bosníumenn tapa boltanum strax í næstu sókn.
 
– 26-31 Haukur Helgi með annað sterkt gegnumbrot og klárar vel. 6.46mín eftir af öðrum leikhluta. Hlynur Bærings er núna utan vallar með þrjár villur og ekki ósennilegt að við sjáum ekkert meira af honum fyrr en í seinni hálfleik.
 
– 24-29 Jón Arnór með körfu og villu að auki, setur vítið og Bosníumenn ráða einfaldlega ekkert við hann. Á varnarendanum þarf íslenska liðið að gera betur, Bosníumenn hreyfa boltann vel og við erum í vandræðum þegar hann dettur inn í teiginn.
 
– 21-27 Haukur Helgi gerir sín fyrstu stig í leiknum með gegnumbroti, Haukur loks kominn á blað og mikilvægt fyrir íslenska liðið. 
 
– 19-24 Hörður Axel opnar með þrist fyir Ísland í öðrum leikhluta en gestirnir svara strax í sömu mynt, 19-27.
 
– Annar leikhluti er hafinn
 
 
Fyrsti leikhluti: (16-24)
 
– Fyrsta leikhluta er lokið…staðan er 16-24 fyrir Bosníumenn sem hafa verið að framkvæma sínar aðgerðir betur þessar fyrstu tíu mínútur. Sóknarleikur Íslands hefur alfarið verið í höndum Jóns Arnórs Stefánssonar og nú er lag að aðrir velti sér í þá baráttu með honum og íslenska liðið ógni úr fleirri en einni átt.
 
– 14-24 Pavel með flott „lob“ á Ragnar Nathanaelsson í teignum sem klárar örugglega og Dusko Ivanovic allt annað en sáttur við þessa varnarvinnu sinna manna í Bosníu og tekur leikhlé til að lesa yfir þeim þegar 36 sekúndur eru eftir af fyrsta leikhluta. 
 
– 12-22 Sutalo með þrist og íslenska liðið þarf að hafa betri gætur á kappanum. Gestirnir frá Bosníu eru að leika vel þessa stundina og nú þarf einhver úr íslensku sveitinni að koma sér á blað annar en Jón Arnór. 
 
– 12-19 Bosníumenn fengu þrjú víti en nýttu aðeins tvö. Martin Hermannsson braut í þriggja stiga skoti.
 
– 12-17 Jón Arnór með stökkskot við endalínuna. Ragnar Nathanaelsson er kominn inn í liðið og byrjar á því að háma í sig varnarfrákast. 
 
– 10-17 og 3.29mín eftir af fyrsta leikhluta og Bosníumenn með 9-0 sprett og Craig Pedersen tekur leikhlé fyrir íslenska liðið. 
 
– Rúlla inn nokkrar villur á íslenska liðið núna, heldur til of mikið að teygja sig í vörninni og nota hendurnar, þurfa að þétta raðirnar aðeins betur. 
 
– 10-13 og Bosníumenn komnir á 5-0 sprett. 
 
– Hlynur fer af velli með sína aðra villu en inn kemur Logi Gunnarsson í hans stað.
 
– 10-8 Jón Arnór með annan þrist, kappinn mætir funheitur til leiks. Stemmningin á pöllunum er mögnuð, þvílíkur stuðningur.
 
– 7-5 Jón Arnór gerir sjö fyrstu stig Íslands og búinn að jafna íslenska stigametið fyrir A-landsliðið sem Grindvíkingurinn Guðmundur Bragason átti einn um sinn. Næstu stig Jóns í leiknum setja hann efstan á lista!
 
– 5-5 Jón Arnór aftur á ferðinni og jafnar eftir gegnumbrot. Leikurinn fer vel af stað, Bosníumenn eru að reyna að teygja vel á íslensku vörninni sem þeir vita að hjálpar vel í teignum.
 
– 2-3 Jón Arnór með fyrstu stig Íslands með þriggja stiga skoti.
 
– Dæmt skref á Sutalo í fyrstu sókn Bosníu og það kann stúkan vel að meta. 
 
– Leikur hafinn og Bosníumenn vinna uppkastið.

Fyrir leik: 

– Bein tölfræðilýsing FIBA Europe: http://live.fibaeurope.com/www/Game.aspx?acc=1&gameID=43385 
 
– Þjóðsöngvunum er lokið…nú fer þetta að bresta á gott fólk! Ríghaldið ykkur.

– Rúnar Birgir Gíslason stjórnarmaður KKÍ og reiknimeistari kvöldsins fer yfir málin með Snorra Erni með tilliti til annarra leikja sem í gangi eru:

– Byrjunarlið Íslands: Pavel Ermolinski, Hörður Axel Vilhjálmsson, Jón Arnór Stefánsson, Haukur Helgi Pálsson og Hlynur Bæringsson.
– Byrjunarlið Bosníu: Stipanovic, Sutalo, Gordic, Kikanovic og Milosevic.
 
 - Við ræddum við Herbert Arnarson fyrir leik en hann var einn af fararstjórum íslenska liðsins þegar það hélt út til Bosníu og lýsir í viðtalinu m.a. þeirri mögnuðu stemmningu sem var í leiknum í Bosníu:
 
– Í kvöld jafnar Axel Kárason landsleikjafjölda föður síns, Kára Marissonar en Kári lék 34 leiki fyrir Ísland á sínum tíma og Axel leikur í kvöld sinn 34. leik fyrir Íslands hönd. 
 
– Lettar unnu Rúmena áðan sem voru jákvæð úrslit fyrir Ísland. Reiknimeistararnir í Laugardalshöll fylgjast grannt með gangi mála og við munum greina frá stöðunni eins fljótt og auðið er hverju sinni.
 
Liðin eru að hita upp, Bosníumenn eins og margoft hefur komið fram leika án Mirza Teletovic í kvöld.
 
– Munið #IslvsBiH
 
– Nú eru um 65 mínútur til leiks og fólk streymir inn á pallana í Laugardalshöll.
 
Viðtal fyrir leik við Craig Pedersen landsliðsþjálfara Íslands:
 
Efsta mynd/ Gunnar Freyr Steinsson – Þrátt fyrir tap var ósvikin gleði í augum landsliðsmannanna sem tryggðu þjóðinni sæti á EM.
 
Fréttir
- Auglýsing -