21:46
{mosimage}
Helgi Freyr Margeirsson og félagar hans í Randers (5-0) heimsóttu BK Amager í dönsku úrvalsdeildinni um helgina og unnu sinn fimmta sigur í röð og sitja taplausir á toppi dönsku úrvalsdeildarinnar. Leikar fóru 82-91 og skoraði Helgi Freyr 2 stig og tók 3 fráköst á þeim 13 mínútum sem hann spilaði.
Lárus Jónsson hefur enn ekki komið við sögu hjá SISU Cph (1-4) vegna meiðsla en það mun þó vera að styttast í að hann mæti til leiks og ekki veitir af, SISU tapaði fyrir skömmu fyrir Næstved 86-98 og hafa aðeins unnið einn sigur í haust í dönsku úrvalsdeildinni.
Horsens IC (0-5) sem Egill Jónasson leikur með er enn án sigurs í dönsku úrvalsdeildinni. Liðið tók á móti Åbyhøj og tapaði 72-80. Egill skoraði 1 stig og tók 2 fráköst á tæpum 11 mínútum.
Jóhann Árni Ólafsson og félagar í Merlins (5-1) unnu góðan útisigur á Wolfenbuettel 87-88 eftir framlengdan leik í þýsku Pro B deildinni (C deild). Jóhann lék í 44 mínútur og skoraði 23 stig auk þess að taka 6 fráköst. Merlins er nú í öðru sæti deildarinnar.
Melilla sem Hörður Axel Vilhjálmsson hóf leiktíðina með heimsótti Pavel Ermolinskij og félaga í La Palma (3-4) í LEB gull deildinni (B deild) á Spáni og sigraði 85-74. Pavel lék í 10 mínútur og komst ekki á blað.
Landshut (1-5) tók á móti BIS Baskets Speyer í þýsku Pro B deildinni og tapaði 75-89. Mirko Virijevic lék í 29 mínútur og skoraði 11 stig, tók 6 fráköst og gaf 4 stoðsendingar.
Darrell Lewis og félagar í DASH Peristeriou (2-1) heimsóttu AO Near East í grísku A2 deildinni og töpuðu 87-77. Darrell lék í 31 mínútu og skoraði 13 stig.
Guðni Valentínusson og félagar í Aarhus BF (4-1) unnu góðan heimasigur á Virum í dönsku 1. deildinni í dag, 84-78.
Odense (2-3) hélt yfir Stóra Belti og mætti Værløse og steinlá, 69-58, dönsku 1. deildinni. Hallgrímur Brynjólfsson lék í 10 mínútur og skoraði 1 stig.
Hinrik Gunnarsson og félagar í Høbas (3-2) sigruðu Jonstrup 67-65 í dönsku 1. deildinni.
Horsens BC (4-1) tók á móti AUS í dönsku 2. deildinni og sigraði 88-81. Halldór Karlsson skoraði 13 stig og Sigurður Einarsson 10. Horsens BC situr nú á toppi 2. deildar vestur.
Brønshøj (4-1) sem þeir Grétar Guðmundsson og Gylfi Björnsson leika með sigraði PIIBBK 89-77 í dönsku 2. deildinni. Grétar skoraði 10 stig og Gylfi 5 fyrir Brønshøj sem situr nú á toppi 2. deildar austur.
Aalborg BK (2-2) sem þær Erla Sif Kristinsdóttir og Erna María Sveinsdóttir leika með heimsótti topplið Skovbakken í dönsku 1. deildinni í dag og tapaði 62-56. Erla skoraði 8 stig en Erna lék ekki með í dag.
Kristín Rós Kjartansdóttir skoraði 6 stig fyrir AUS (2-2) sem sigraði Esbjerg í dönsku 1. deildinni 48-33 á útivelli.
AUS 2 (0-3) sem Sveinn Pálmar Einarsson leikur með í dönsku 3. deildinni heimsótti B 71 í dag og tapaði 81-64. Sveinn lék ekki með vegna meiðsla.
Odense 2 (3-1) vann Vejle í dönsku 3. deildinni í dag, 72-61. Ágúst Ingi Ágústsson lék með liðinu og tók mörg fráköst en komst ekki á blað í stigaskorinu. Steinar Páll Magnússon lék hins vegar ekki með vegna meiðsla.
Mynd: Sveinn Pálmar Einarsson



