spot_img
HomeFréttirÍS mætir á Ásvelli í kvöld

ÍS mætir á Ásvelli í kvöld

14:24 

{mosimage}

 

 

Staðan er jöfn 1-1 í undanúrslitaeinvígi Hauka og ÍS í Iceland Express deild kvenna. Haukar höfðu sigur í fyrsta leiknum 76-61 en ÍS svaraði fyrir sig með 84-74 sigri á heimavelli.

 

Fyrirfram var búist við því að Haukar myndu nokkuð örugglega komast upp úr undanúrslitunum enda töpuðu þær ekki leik gegn ÍS í deildarkeppninni. Stúdínur sýndu það hinsvegar og sönnuðu að þær eru sýnd veiði en ekki gefin.

 

Ifeoma Okonkwo fór á kostum fyrir Hauka í fyrsta leik er hún gerði 30 stig og tók 13 fráköst en ÍS hafði betri gætur á Ifeomu í öðrum leiknum þar sem hún gerði aðeins 13 stig og tók 11 fráköst.

 

Casey Rost átti stórleik fyrir ÍS í öðrum leiknum þar sem hún setti niður 31 stig, tók 7 fráköst og gaf 7 stoðsendingar. Fimm þriggja stigakörfur frá Stellu Kristjánsdóttur komu einnig að góðum notum fyrir Stúdínur í öðrum leik liðanna.

 

Haukar hafa ekki tapað leik á heimavelli í vetur ef frá er talin Evrópukeppnin og eru þær rauðu titilhafar allra bikara sem hægt er að ná á vegum KKÍ. Haukar eru Íslandsmeistarar, Bikarmeistarar, Deildarmeistarar, Meistarar meistaranna og Powerademeistarar. Stúdínur urðu Bikarmeistarar á síðustu leiktíð svo þær þekkja það vel að hefja þá stóru á loft. Það skyldi enginn afskrifa Stúdínur í þessari rimmu en fastlega má búast við Haukaliðinu firnasterku á heimavelli í kvöld.

 

Haukar-ÍS

Ásvellir kl. 19:15 í kvöld

 

Mynd – Stefán Borgþórsson – [email protected]

Fréttir
- Auglýsing -