spot_img
HomeFréttirÍris Sverrisdóttir til Hauka

Íris Sverrisdóttir til Hauka

Haukar halda áfram að draga til sín leikmenn en í gær skrifaði bakvörðurinn Íris Sverrisdóttir undir samning við félagið. Íris er fjórði leikmaðurinn sem gengur til liðs við Hauka fyrir komandi leiktíð en fyrir voru þær Þórunn Bjarnadóttir, Val, og Snæfellingarnir Gunnhildur Gunnarsdóttir og Unnur Lára Ásgeirsdóttir búnar að klára samning við Haukaliðið.
Íris er uppalin Grindvíkingur og hefur leikið með þeim í efstu deild í þó nokkurn tíma. Hún gerði 8,8 stig að meðaltali í leik á síðustu leiktíð, var með 4,3 fráköst og 3,5 stoðsendingar í leik.
 
Henning Henningsson var að vonum ánægður með að fá Íris til liðs við Hauka og sagði hún væri kærkomin viðbót við þann öfluga hóp sem fyrir væri og að þetta yrði örugglega skemmtilegt tímabil.
 
„Ég er gríðarlega ánægður með að fá Írisi til Hauka og að sjálfssögðu þær Þórunni, Gunnhildi og Unni líka því við erum ekki að taka á móti neinum prímadonnum heldur stelpum sem eru hörkuduglegar og tilbúnar að leggja mikið á sig og spila fyrst og fremst fyrir liðið.“
 
„Við erum líka, eins og allir vita, með gríðarlega efnilega leikmenn í Haukum en þeim hópi þarf að hlúa að og eru þær stelpur að sjálfssögðu hluti af meistaraflokknum og munu halda áfram að styrkjast og þroskast. “
 
Haukar urðu íslandsmeistarar í unglinga og stúlknaflokki á síðustu leiktíð og því nóg af efniviði innan félagsins. Til að skapa næg verkefni fyrir allar þessar stelpur segir Henning að Haukar muni tefla fram tveimur meistaraflokksliðum á næstu leiktíð en ákveðið hefur verið að vera með lið einnig í 1. deild kvenna.
„Það verða ærin verkefni fyrir allar stelpurnar í hópnum, mikið leikjaálag og nóg af leikjum fyrir allar.“
 
Mynd: Íris ásamt Reyni Kristjánssyni formanni meistaraflokksráðs – Sturla Jónsson
 
Fréttir
- Auglýsing -