spot_img
HomeFréttirÍR vann mikilvægan sigur á Þór(Umfjöllun)

ÍR vann mikilvægan sigur á Þór(Umfjöllun)

20:05

{mosimage}

ÍR-ingar tóku á móti Þór frá Akureyri í Breiðholtinu í dag. Fyrir leikinn voru bæði lið með 8 stig í 7. og 8. sæti Iceland Express-deildar karla. Heimemnn höfðu þó betur í leiknum í dag 96-85 og eru því með tveimur fleiri stig en Þór sem á reyndar leik til góða. Nýr leikmaður ÍR, Tahitou Sani, sýndi virkilega góða takta í leiknum og er mikill fengur fyrir ÍR-liðið, en hann skoraði 32 stig í leiknum þrátt fyrir að spila aðeins 28 mínútur. Stighæstir í liði ÍR voru  Tahirou Sani með 32 stig, Sveinbjörn Claessen með 18 stig og Hreggviður Magnússon með 16 stig. Hjá Þór voru það Cedric Isom með 28 stig, Luka Marolt með 14 stig og Þorsteinn Gunnlaugsson með 13 stig. Fyrir leikinn fékk Kristinn Óskarsson dómari viðurkenningu frá KKÍ en hann hafði dæmt sinn 1000. leik kvöldið áður þegar Valur tók á móti Reyni.

Leikurinn spilaðist nokkuð jafn fyrstu þrjá leikhlutana þó ÍR hefði alltaf forskotið. Munurinn á liðunum náði mest 10 stig og stefndi í æsispennandi mínútur. Undir lok þriðja leikhluta náðu ÍR-ingar góðu áhlaupi sem hélt áfram í byrjun fjórða og virtust þeir vera að ná góðum tökum á leiknum. Þegar fjórð leikhluti var um það bil hálfnaður var forskot ÍR komið upp í 19 stig. Þá tók Þór sig á og saxaði hratt á forskotið sem var komið niður í 5 stig aðeins þremur mínútum síðar. Lokamínúturnar urðu því nokkuð spennandi en þegar um hálf mínúta var eftir má segja að sigurinn hafi verið kominn í hús.  ÍR sigraði því með 11 stigum, 96-85. 

{mosimage}

Leikurinn byrjaði þó ekki mjög lukkulega því glæný og glæsileg leikklukka Breiðhyltinga klikkaði þar sem skotklukkan fór aldrei í gang. Það þurfti því að senda leikmennina í upphitun aftur eftir 25 sekúndur af leik og tafðist leikurinn því talsvert. Þegar leikurinn svo loksins byrjaði aftur var eins og liðin væru ekki alveg mætt til leiks en fyrsti leikhlutinn eins og hann lagði sig má segja að hafi verið upphitun fyrir leikinn því hvorugt lið gerði neinar rósir og varnarleikurinn leið mikið fyrir. Leikurinn var jafn í stöðunni 10-10 eftir 4 mínútur. Eftir það náði ÍR forskotinu og leiddu með 5 til 7 stigum það sem eftir var leikhlutans. Þegar lítið var eftir að leikhlutanum braut Nate Brown á Cedcric Isom og fékk fyrir vikið sína þriðju villu strax í fyrsta leikhluta. Cedric skoraði úr báðum vítunum sem hann fékk fyrir vikið og minnkaði muninn í 4 stig en leikhlutinn endaði 22-18.   

{mosimage}

Í öðrum leikhluta var sama sagan en ÍR hafði forskot mest allan leikhlutan. Það gekk þó lítið hjá ÍR-ingum að koma boltanum ofan í körfuna og ágætisvörn hélt aftur af Þór sem náðu þó að jafna í stöðunni 26-26 þegar leikhlutinn var um það bil hálfnaður. Lengra komust þeir hins vegar ekki því ÍR náði forskotinu aftur og höfðu 5 stiga forskot í hálfleik, 41-36. Bæði lið tóku leikhlé á seinustu 10 sekúndunum til þess að reyna að koma boltanum ofan í körfuna en tókst hvorugu. Það er svo gaman að segja frá því að Ólafur Torfason, margumræddur ruðningsleikmaður Þórs kom við sögu í leikhlutanum. 

{mosimage}

Í þriðja leikhluta gekk lítið hjá Þór að koma boltanum í körfuna en Cedric Isom skoraði fyrstu stig liðsins í leikhlutanum eftir rúmlega þrjár leikmínútur. ÍR notaði tækifærið og náði forskoti sínu upp í 10 stig í stöðunni 46-36. Þegar leikhlutinn var hálfnaður hafði ÍR 9 stiga forskot og leit ekki út fyrir að ætla að gefa eftir. Segja má svo að lok þriðja leikhluta hafi verið vendipunktur í leiknum því hann var algjör eign ÍR-inga en þeir skoruðu 21 stig gegn 13 stigum Þórs á seinustu 5 mínútum leikhlutans. Þar af skoraði ÍR seinustu 5 stigin í leikhlutanum.  Staðan var því 75-57 þegar leikhlutinn rann út.   

Í byrjun fjórða leikhluta hafði ÍR enn gott tak á leiknum og ekki hjálpaði það Þórsurum að Hrafn Jóhannes fékk sína fimmtu villu og útilokum frá leiknum. Forskotið entist þó ekki eins lengi og ÍR-ingar höfðu vonað en Þór byrjaði að saxa hratt á muninn þegar leikhlutinn var um það bil hálfnaður og var munurinn kominn aftur í um það bil 10 stig þegar klukkan stóð í 5 mínútum. Þá tóku ÍR-ingar leikhlé til að koma í veg fyrir þessa þróun. Þórsarar héldu þó áfram að minnka forskotið og fór Cedric Isom mikinn og átti mörg góð einstaklingsframtök. Þegar tæplega tvær mínútu voru eftir var munurinn kominn kominn í 5 stig, 87-82 og farið að hitna vel í húsinu. Það má þó segja að þar hafi ÍR-ingar sagt ,,hingað og ekki lengra” því gestirnir skoruðu aðeins 2 stig það sem eftir lifði leiks gegn 9 stigum heimamanna. Þar með var mikilvægur heimasigur ÍR-inga staðreynd.  

{mosimage}
(Ólafur Torfason)

Í liði ÍR stóð nýr leikmaður þeirra Tahirou Sani upp úr en hann skoraði 32 stig á 28 mínútum og átti mörg virkilega góð varnartilþrif ásamt því að verja boltan glæsilega nokkrum sinnum.  Sveinbjörn Claessen átti einnig mjög góðan leik. Nate Brown spilaði mjög vel í seinni hluta leiksins eftir að hafa setið allan annan leikhluta vegna villuvandræða. Hjá gestunum má segja að Cedric Isom hafi verið allt í öllu því ásamt því að vera stigahæstur í liðinu gaf hann 4 stoðsendingar og bjó til mikið af góðum færum fyrir félaga sína. Óðinn Ásgeirsson var þó aðeins skugginn af sjálfum sér og fann sig engan veginn í sóknarleik liðsins í dag. Það er svo gaman að segja frá því að Ólafur Torfason, margumræddur ruðningsleikmaður Þórs kom mikið við sögu í góðu áhlaupi Þórs í fjórða leikhluta og hann sýndi það að hann hefur ekki gleymt körfuboltanum þrátt fyrir að hafa haft hugan við annað seinustu ár.  

Texti: Gísli Ólafsson 

Mynd: [email protected] 

Fréttir
- Auglýsing -