Skallagrímur gerði sér ferð í Breiðholtið og heimsóttu ÍR í Hertz-hellinn. Breytingar hafa átt sér stað í herbúðum ÍR og eru nýir foringjar við völdin. Fyrrum þjálfari ÍR, Jón Arnar Ingvarsson, sagði starfi sínu lausu á föstudaginn var og skildu leiðir hans og ÍR í mesta bróðerni. Í hans stað komu þeir Steinar Arason og Herbert Arnarson, en báðir eru þeir fyrrum leikmenn ÍR. Steinar hafði starfað sem aðstoðarþjálfari Jóns Arnars.
Leikurinn var í raun aldrei spennandi sem slíkur en fyrir augað var hann fín skemmtun. Nóg var um skemmtilega tilburði. Það var greinilegt að breyttar áherslur á bekk heimamanna var sem vítamínsprauta í afturenda ÍR-inga og var allt annað að sjá leik þeirra í þessum leik miðað við baráttuleysið gegn Njarðvík fyrir viku síðan. Breiðhyltingar ætluðu að sanna að þetta var ekki búið spil, þó þeir sætu í neðsta sæti deildarinnar.
Heimamenn byrjuðu strax á þéttum varnarleik og sóknin var skipulögð, yfirveguð og leikur liðsins var sem vel smurð vél. ÍR komust í 8-0 og loks í 14-3, sókn Skallagríms var tilviljunarkennd á köflum og virtust þeir ekki eiga svör við sókn né vörn ÍR. Heimamenn héldu áfram sínum leik og smám saman jókst munurinn í 20 stig, en á tímabili virtist hringurinn í körfu ÍR vera á stærð við Faxaflóa. Allt virtist rata niður. Varnarleikur heimamanna var líka mun betri og lykillinn að því virtist vera að þeir töluðu meira sín á milli í vörn. Það kom í veg fyrir glennur í og opnar leiðir fyrir Skallagrím, líkt og Njarðvík hafði fengið í síðasta leik. Einnig var gaman að sjá hversu vinsælt það var að grípa fráköst, en það virtist algjört tabú gegn Njarðvík.
ÍR volgnuðu þó aðeins og stórt forskot þeirra virtist ætla að fjara út, en Borgnesingar nýttu tækifæri sín ekki nægilega vel, þrátt fyrir að Carlos Medlock gerði allt sem hann mögulega gat til að halda liðinu inni í leiknum. Hann átti svo eftir að vera eini maðurinn í liði Skallagríms sem eitthvað hélt stigaskori liðsins á floti í annars öruggum sigri heimamanna frá nánast fyrstu mínútu leiks. ÍR settu því aftur í hærri gír og greinilegt var að þetta var aldrei spurning hvort liðið færi heim sem sigurvegari, heldur aðeins hversu stór sá sigur yrði.
Skallagrímsmenn, þrátt fyrir að vera alltaf langt undir í leiknum, gáfust þó ekki upp og reyndu mest allan leikinn að gefa allt sem þeir áttu til að reyna að brúa bilið og var þar áðurnefndur Medlock ásamt Herði Hreiðarssyni og Páli Axeli Vilbergssyni sem héldu skútu Borgnesinga á floti. Medlock virtist jarða hvern þristinn á fætur öðrum en hann endaði með 5 slíka úr 11 tilraunum. Upp úr miðjum fjórða leikhluta, þegar forysta ÍR hafði dottið niður úr 28 stigum í 23, en aftur farið upp, virtist allur vindur úr gestunum.
Breiðhyltingar spiluðu aldrei eins og botnlið í þessum leik. Það var allt annað að sjá til þeirra og virtist allur leikur þeirra vera agaðri og einbeittari. Þrátt fyrir að vera með hátt í 30 stiga forskot á tímabili og oftast um 20 stigum yfir, misstu þeir aldrei einbeitninguna og héldu inngjöfinni stabílli. Það var líkt og þeir væru með blóðbragð í munni og vildu ganga frá annars velkomnum gestum, Skallagrími. Frábær byrjun hjá Herberti og Steinari, en þeirra bíður erfitt verkefni, að bjarga ÍR-ingum frá falli. Ef þetta er það sem koma skal, þá liggur leiðin eingöngu upp á við.
Hjá heimamönnum voru það fjórir menn sem leiddu liðið til þessa sigurs. Eric Palm (26 stig, 9 fráköst, 3 stolnir boltar) og Sveinbjörn Claessen (18 stig, 9 fráköst, 5 stoðsendingar) voru þar atkvæðamestir, en þeir héldu leik liðsins uppi ásamt D‘Andre Jordan (12 stig, 8 stoðsendingar). Nemanja Sovic (22 stig, 5 fráköst) var einnig öflugur í stigaskorinu og þá sérstaklega í seinni hálfleik og hjálpaði mikið við að koma í veg fyrir að Skallagrímur kæmust inn í leikinn á ný.
Eins og áður kom fram var Carlos Medlock nánast sá eini sem sá um stigaskorun fyrir Borgnesinga, en hann endaði með 32 stig, 7 fráköst, 4 stoðsendingar og 2 stolna bolta. Næstur var Hörður Helgi Hreiðarsson með 14 stig, 8 fráköst og 2 varin skot. Páll Axel Vilbergsson endaði svo með 9 stig og 4 fráköst.
Umfjöllun/ Arnar Freyr Böðvarsson



