spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaÍR sterkari á lokasprettinum á Meistaravöllum

ÍR sterkari á lokasprettinum á Meistaravöllum

ÍR lagði KR á Meistaravöllum í kvöld í 9. umferð fyrstu deildar karla, 71-79. Eftir leikinn er ÍR í efsta sæti deildarinnar með átta sigra og eitt tap á meðan að KR er í öðru sætinu með sjö sigra og tvö töp það sem af er tímabili.

Önnur úrslit kvöldsins

Fyrir leik

KR og ÍR voru að sjálfsögðu þau lið sem fallið höfðu úr Subway deildinni á síðustu leiktíð og var þetta fyrsta viðureign sögunnar á milli þeirra í fyrstu deild. Sem er nokkuð áhugavert, ekki síst í ljósi þess að aðeins eru liðin þrjú heil tímabil síðan þau léku oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn á þessu sama parketi.

Gangur leiks

Það voru heimamenn í KR sem voru sterkari aðilinn á upphafsmínútum leiksins og eru snemma komnir með 5 stiga forystu, 7-2. ÍR nær þó hægt og bítandi að vinna sig inn og er staðan jöfn 14-14 að fyrsta fjórðung loknum. Varla má svo sjá á milli liðanna undir lok fyrri hálfleiksins, en það eru ÍR sem þó eru 3 stigum yfir þegar liðin halda til búningsherbergja, 32-35.

Stigahæstur heimamanna í fyrri hálfleiknum var Friðrik Anton Jónsson með 9 stig á meðan að Oscar Jørgensen var kominn með 11 stig fyrir gestina.

Gestirnir úr Breiðholti mæta sterkari til leiks í seinni hálfleikinn og ná lítillega að bæta við forystu sína á upphafsmínútum þess þriðja. Eru komnir 8 stigum yfir eftir fyrstu 3 mínúturnar þegar KR tekur leikhlé til þess að fara yfir sín mál. Það gerir þó lítið sem ekkert fyrir þá, þar sem ÍR nær enn að bæta við forskot sitt undir lok leikhlutans og fer munurinn mest í 13 stig, 37-50. Heimamenn ná þó nokkuð sterku áhlaupi og með ótrúlegri körfu frá Troy Cracknell undir lok fjórðungsins ná þeir að vera stigi yfir inn í lokaleikhlutann, 53-52.

Mikið jafnræði er á með liðunum vel inn í þann fjórða. Um miðbygg leikhlutans nær ÍR samt að komast nokkrum körfum á undan. Með rúmar 6 mínútur eftir eru þeir 7 stigum yfir, 58-65. Á lokamínútunum ná gestirnir svo að loka varnarlega og setja niður ótrúlegustu körfur á hinum enda vallarins. Niðurstaðan að lokum frekar öruggur sigur ÍR, 71-79.

Atkvæðamestir

Bestur í liði ÍR í kvöld var Oscar Jørgensen með 22 stig, 3 fráköst og 5 stoðsendingar. Fyrir KR var það Troy Cracknell sem dró vagninn með 22 stigum, 7 fráköstum og 3 stoðsendingum.

Hvað svo?

Heil umferð er á dagskrá deildarinnar komandi föstudag 8. desember, en þá mætir KR liði ÍA á Akranesi og ÍR fær Selfoss í heimsókn.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -