Eric Palm sá til þess að dagaði á ný í Hertz Hellinum þegar ÍR lagði KFÍ í æsilegum botnslag liðanna í Domino´s deild karla. Framlengja varð leikinn þar sem Hjalti Friðriksson tryggði ÍR framlengingu en kveikjan að sigrinum var Palm sem fór hamförum í fjórða leikhluta og reif ÍR að nýju inn í leik sem virtist vera þeim glataður. Lokatölur 95-86 ÍR í vil sem fyrir vikið eru komnir í 10. sæti deildarinnar og sendu KFÍ á botninn með Fjölni.
Magnað einvígi Pitts og Palm fór stigvaxandi með hverri mínútu lokasprettsins í kvöld en þarna fara tveir hrikalega sterkir leikmenn. Rándýr stig í baráttunni hjá ÍR og ekki í fyrsta sinn þessa vertíðina sem lokaþristur reynist KFÍ erfiður að kyngja. Í framlengingunni fuðraði leikurinn svo upp þegar sóknarvilla og tæknivilla á KFÍ í kjölfarið skutu upp kollinum og heimamenn gerðu því út um leikinn á vítalínunni.
Kuldaskítur í Hertz Hellinum í fyrsta leikhluta þar sem liðunum virtist fyrirmunað að kaupa körfu. Heimamenn í ÍR gerðu fyrstu stig leiksins eftir tveggja mínútna leik, komust í 6-2 og síðar í 13-8 eftir þrist frá Sveinibirni Claessen. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 15-10 ÍR í vil, lítið skorað, nýtingin afleit og gæði leiksins gátu ekkert annað en batnað eftir þessa djúpu lægð á fyrstu tíu mínútunum.
Eric Palm opnaði annan leikhluta með þrist fyrir ÍR og heimamenn komnir í 18-10 en þá tóku gestirnir við sér og splæstu í 7-0 skriðu áður en Palm mætti með annan þrist og staðan snöggtum orðin 21-17 fyrir ÍR.
Þegar um fjórar mínútur voru liðnar af öðrum leikhluta kom D´Andre Jordan Williams inn í liði ÍR og byrjaði á því að ræna bolta af Damier Pitts og skora á hinum endanum. Williams bar þess þó augljós merki að vera ekki í 100% standi fyrir þennan leik en hann hefur verið að glíma við meiðsli undanfarið.
Pitts og Bradshaw áttu svo glæsileg tilþrif með ,,alley-up” körfu þegar KFÍ jafnaði 21-21. Steinar Arason aðstoðarþjálfari ÍR lék sínar fyrstu mínútur með liðinu í kvöld og tóku stuðningsmenn ÍR vel á móti honum þegar hann mætti inn á parketið. ÍR náði upp 5 stiga forystu 32-27 en góður kafli hjá KFÍ skilaði þeim í 32-35 og gerðu þeir átta síðustu stig fyrri hálfleiks.
Hinn magnaði Pitts hafði afar hægt um sig í fyrri hálfleik en sá átti eftir að láta til sín taka í síðari háflleik. Bæði lið voru dugleg að skjóta þristum í kvöld og Ísfirðingar sérlega duglegir í upphafi síðari hálfleiks, ekkert vildi niður og á meðan opnuðu ÍR-ingar þriðja leikhluta með 9-0 skorpu. Rúmar þrjár mínútur voru liðnar af þriðja leikhluta þegar Tyrone Bradshaw skoraði fyrstu stig KFÍ í síðari hálfleik. Liðin héldu svo af velli þegar þriðja leikhluta lauk í stöðunni 50-50 og nokkuð ljóst að framundan yrði svakalegur lokasprettur.
Damier Pitts kom KFÍ í 52-55 eftir nokkuð myndarlegan dvala í leiknum en Williams jafnaði í 55-55 fyrir ÍR strax í næstu sókn. Damier Pitts var nánast óviðráðanlegur þegar hér var komið við sögu og kom KFÍ í 55-65 með þriggja stiga körfu þegar fimm mínútur voru til leiksloka. Eric James Palm lét ekki bjóða sér enn einn tapleikinn, brá undir sig betri fætinum og hóf að saxa niður forskot KFÍ einn síns liðs!
Palm minnkaði muninn í 68-70 en þá hafði kappinn gert 11 stig í röð fyrir ÍR. Sveinbjörn Claessen var svo í stóru stráka sokkunum þegar hann nelgdi niður þrist og breytti stöðunni í 71-72. Damier Pitts var öryggið uppmálað þegar hann svo kom KFÍ í 71-74 með teigkörfu og 11,7 sekúndur til leiksloka. Eric Palm minnkaði í 73-74 en Pitts kom KFÍ í 73-76 af vítalínunni. ÍR átti lokasóknina og ljóst að heimamenn þyrftu þrist til að knýja fram framlengingu. Eflaust hafa flestir búist við því að Palm myndi taka lokaskotið en annað kom á daginn. Nemanja Sovic fann að lokum Hjalta Friðriksson í horninu sem skellti niður þistitinum og jafnaði í 76-76 og því varð að framlengja.
Kristján Pétur Andrésson kom KFÍ í 78-79 þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir af framlengingunni. ÍR tók við þetta á rás, jöfnunarþingmaðurinn Hjalti Friðriksson átti stóran þátt í velgengi ÍR á lokasprettinum með fingurna í ófáum fráköstum og barðist vel. Sveinbjörn Claessen mætti með dýrmætan þrist og staðan orðin 83-79 og skömmu síðar mætti Nemanja Sovic með teighreyfingu úr vopnabúri sínu og kom ÍR í 85-79. KFÍ voru þó ekki af baki dottnir og náðu að minnka muninn í 85-83. Lengra komust gestirnir ekki því Pitts fékk dæmdan á sig ruðning á lokasekúndunum og í kjölfarið fengu gestirnir dæmt á sig tæknivíti eftir samskipti sín við dómara. Heimamenn þáðu með þökkum fjögur vítaskot þegar innan við hálf mínúta var til leiksloka og það varð banabiti gestanna, lokatölur 95-86 og gefa þær ekki rétta mynd af þessum spennuslag sem úr stöðunni 50-50 var bráðfjörugur.
Hressandi lokasprettur eftir nokkuð dræman fyrri hálfleik en það var Eric Palm sem fór mikinn í liði ÍR í kvöld með 42 stig, 7 fráköst og 2 stoðsendingar. Sveinbjörn Claessen bætti við 22 stigum og Nemanja Sovic gerði 15 stig og tók 10 fráköst. Hjá KFÍ var Damier Pitts með 33 stig, 9 fráköst og 6 stoðsendingar og Tyrone Bradshaw gerði 20 stig og tók 16 fráköst.
Mynd og texti/ [email protected]



